Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 24. apríl 2015 12:45
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Nýliðinn - „Vil helst ekki ná Evrópusæti
Ingvar Kale er nýliði hjá Val.
Ingvar Kale er nýliði hjá Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Fótbolti.net hitar upp fyrir Pepsi-deildina með því að kynna liðin í þeirri röð sem þeim er spáð. Meðfram því kynnum við einn nýliða í hverju liði, leikmann sem gekk í raðir þess fyrir tímabilið.

Nafn: Ingvar Þór Kale
Aldur: 32 ára
Staða: Markvörður
Fyrri félög: Víkingur, KS, Berserkir, Breiðablik

Hvaða væntingar hefur þú til sumarsins hjá liðinu: Hef góða tilfinningu fyrir sumrinu. Við erum búnir að spila vel í vetur þrátt fyrir smá bakslag á móti Blikum. Höfum alla burði til þess að ná ásættanlegum árangri.

Hvernig finnst þér búningur liðsins: Valsbúningurinn er fallegur. Ég hef reyndar ekki séð markmannsbúninginn en treysti Dóra liðsstjóra fyrir því að hann sé solid, enda Dóri fagmaður í sínu starfi, er ekki viss um að aðrir liðsstjórar í deildinni kæmust í Valsliðið.

Í hvernig takkaskóm spilar þú: Copa mundial, einfalt og gott...

Hvert er þitt helsta afrek sem knattspyrnumaður: Ætli það sé ekki að verða Bikar- og Íslandsmeistari með Breiðablik.

Hefð á leikdegi: Set Barfly með Jeff who? á fóninn og fer í gegnum myndband af mér gera góða hluti í leik. Þá hættir stressið og sjálfstraustið tekur við.

Afhverju valdir þú að fara í Val: Um leið og Óli hafði samband við mig og ég átti gott spjall við stjórnina var ekki aftur snúið. Valur er metnaðarfullt félag með sterka leikmenn.

Hvernig hafa fyrstu mánuðir hjá nýju liði verið: Mjög góðir. Við höfum æft stíft og allt að smella.

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði: Igor Taskovic, virkilega öflugur leikmaður sem getur leyst margar stöður. Frábær karakter og góður félagi. Hann og Haukur Páll yrðu svakalegir saman.

Hverju værir þú til í að breyta hjá félaginu: Væri til í að sjà yfirbyggt gervigras. Þórður Steinar mætti reyndar líka skipta um rakara.

Skilaboð til stuðningsmanna: Vonandi koma sem flestir á völlinn í sumar og styðja okkur. Við munum leggja allt í sölurnar. Sjáumst 3. maí í fyrsta leik! Áfram Valur!

Ingvar Þór Kale kom til Valsmanna í vetur eftir að hafa leikið með Víking undanfarin tvö ár. Fyrst í 1.deild karla og síðan sem nýliðar í Pepsi-deild karla þar sem Víkingar náðu Evrópusæti.

„Síðustu tvö ár í Víking var frábær tími. Við unnum okkur sæti í efstu deild og síðan beint í Evrópukeppni. Það virðist vera að mér sé alltaf sparkað burt þegar ég kemst í Evrópukeppni með einhverju liði. Það liggur við að ég vilji ekki ná Evrópusæti með Val," segir Ingvar í kímni og vonar að framundan sé gott sumar fyrir alla Valsmenn. Án þess að vilja gefa upp væntingar til sumarsins.

Ingvar varð samningslaus eftir síðasta tímabil og samningaviðræður við Víking sigldu í strand.

„Ég settist niður með Víkingum fyrst. Þeir vildu ekki það sama og ég. Þeir vildu lækka samninginn minn sem mér fannst ekki sanngjarnt. Ég fékk síðan fréttir á æfingu að þeir vildu ekki nota mig áfram, svo ég fór að leita mér að nýju félagi," segir Ingvar sem er ekkert hræddur um að fá blendnar tilfinningar í sumar að sjá Víkingana í Evrópukeppninni.

„Ég hefði ekkert frekar viljað að Valur hefði náð Evrópusæti í fyrra, því ég var í Víking þá. Ég tek þennan árangur í fyrra með Víking til mín og er stoltur af honum. Vonandi gengur þeim sem best í Evrópukeppninni."

Indverski prinsinn er í harðri baráttu við hinn unga og efnilega, Anton Ara Einarsson um markvarðarstöðuna hjá Valsliðinu. Báðir hafa þeir spilað leiki Vals í vetur.

„Það verður að koma í ljós hver byrjar. Anton Ari er mjög efnilegur markmaður. Hann hefur staðið sig vel. Ég verð alltaf klár, hvort sem ég byrja eða ekki. Samkeppni er alltaf af hinu góða. "

„Auðvitað vill ég spila, ég geri mér grein fyrir því að það er barist um allar stöður í Val eins og í hinum toppliðunum. Valur er engin undantekning. Ég kem hinsvegar í Val til að vera númer eitt, það er engin spurning," segir Ingvar Þór Kale að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner