Barcelona vill Díaz frá Liverpool - Úlfarnir skoða markverði - City til í að hlusta á tilboð í Grealish
   þri 24. apríl 2018 10:15
Magnús Már Einarsson
Rafn: Ætlum að gera þetta tímabil eftirminnilegt
Rafn Markús Vilbergsson.
Rafn Markús Vilbergsson.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
Njarðvíkingar fagna marki í 2. deildinni í fyrra.
Njarðvíkingar fagna marki í 2. deildinni í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Benóný Þórhallsson
„Við eru meðvitaðir um að þetta verður mjög krefjandi verkefni. Við teljum okkur vera með vel mannaðan hóp sem er tilbúinn að takast á við þær áskoranir sem bíða okkar í deildinni," segir Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkinga, en nýliðunum er spáð ellefta sæti í spá þjálfara og fyrirliða í Inkasso-deildinni.

„Spáin kemur ekki á óvart, nýliðum er jafnan spáð neðarlega en við ætlum okkur stærri hluti en að spila í 2. deild að ári. Strax eftir að við tryggðum okkur upp um deild í fyrra var lögð áhersla á að koma vel undirbúnir til leiks í Inkasso deildina og festa Njarðvíkurliðið í sessi í efri deild. Við búum við góðar aðstæður í Njarðvík yfir vetrarmánuðina sem hjálpar okkur mikið í okkar undirbúningi."

„Þetta verður skemmtilegt og krefjandi verkefni sem gaman verður að takast á við. Njarðvíkurliðið er komið í 1. deildina og er það markmið allra sem koma að félaginu að ná stöðugleika þar."

„Við erum með frekar ungt lið sem er komið með mikla reynslu í neðri deildum en eru að stíga skrefið ofar. Hjá okkur mun þetta fyrst og fremst snúast um liðsheild. Ég tel okkur vera með öfluga liðsheild sem getur fleytt okkur mun ofar í deildinni en spáin segir til um. Ég hef mikla trú á leikmannahópnum okkar og því sem við höfum verið að vinna að síðan 2016. Við ætlum að gera þetta tímabil eftirminnilegt."


Rafn segir ljóst að Njarðvíkingar ætli að leggja hart að sér til að halda sæti sínu í Inkasso-deildinni að ári.

„Það er mikill meðbyr með okkur og mikilvægt að nýta hann vel. Að mínu mati erum við samkeppnishæfir við önnur lið og komum vel undirbúnir til leiks. Leikmannahópurinn hefur lagt mjög hart að sér og þeir þekkja hlutverkin sín vel. Við gerum okkur grein fyrir því að enginn leikur verður auðveldur í þessari deild, markmiðið er að njóta þess að spila. Við ætlum okkur að mæta sterkir til leiks og vera áfram í deildinni þegar flautað verður til leiksloka í september."

Frá því í fyrra hefur Njarðvík bætt við fimm leikmönnum en hefði Rafn viljað styrkja hópinn ennþá meira?

„Leikmannaveltan hjá okkur hefur ekki verið mikil. Það hafa verið minni breytingar á okkar leikmannahópi en hjá flestum liðum í deildinni en við erum ánægðir með okkar stöðu."

„Við lögðum áherslu á að byggja liðið í sumar á kjarna þeirra leikmanna sem áttu stærstan þátt í árangri liðsins í fyrra og bæta við nokkrum flottum karakterum og sterkum leikmönnum til að bæta liðið, styrkja og stækka leikmannahópinn. Breiddin í hópnum er meiri en í fyrra en við leggjum áfram mikla áherslu á samheldni innan hópsins, en hún var eitt af megineinkennum liðsins síðasta sumar,"
sagði Rafn en hann reiknar ekki með frekari liðsstyrk fyrir mót.

„Það verða ekki miklar breytingar á hópnum fyrir mót. Við erum mjög ánægðir með leikmannahópinn eins og hann lítur út í dag."

Njarðvík mætir Þrótti R í fyrstu umferð Inkasso-deildarinnar um aðra helgi og Rafn er orðinn spenntur fyrir sumrinu.

„Þetta verður hörku deild , líklega verður hún mjög jöfn og spennandi. Það eru alltaf einhver lið sem munu koma á óvart. Það er ljóst að öll lið þurfa að hafa fyrir hverjum einasta leik í þessari deild. Fyrir okkur Njarðvíkinga er spennandi sumar framundan og vonandi verður áfram aukning á áhorfendum á Njarðtaksvelli en hún var mikil í fyrra," sagði Rafn að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner