Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 24. maí 2017 15:40
Elvar Geir Magnússon
Viðtal
Logi Ólafs: Stend í ákveðinni þakkarskuld við félagið
Logi í ágætum félagsskap í stúkunni.
Logi í ágætum félagsskap í stúkunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi meðal áhorfenda á leik Víkings gegn Breiðabliki.
Logi meðal áhorfenda á leik Víkings gegn Breiðabliki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Logi Ólafsson hefur yfirgefið Pepsi-mörkin og svarað kalli sinna manna í Víkingi Reykjavík og tekið við stjórnartaumum liðsins eftir að Milos Milojevic sagði upp síðasta föstudag.

„Við byrjuðum að ræða saman fyrir 2-3 dögum. Sem sæmilega siðaður maður þá hittir maður fólk og ræðir við það. Eftir þær viðræður var niðurstaðan að ég myndi taka þetta að mér. Mér líst vel á þessa menn sem að þessu standa og líst vel á liðið og það sem verið er að gera í umgjörðinni og öðru," segir Logi við Fótbolta.net.

„Ég tel þetta ágætt skref og ég stend í ákveðinni þakkarskuld við þetta félag. Þetta er það félag sem gaf mér það tækifæri fyrir rúmlega aldarfjórðungi að þjálfa í þessari deild. Það hefur síðan verið minn starfsvettvangur býsna lengi. Það hafði töluvert að segja."

„Mér fannst endirinn í Garðabænum frekar snubbóttur endir á mínum ferli. Það er vonandi að endirinn verði betri næst."

Logi var búinn að leggja þjálfaramöppuna á hilluna.

„Ég hef fengið fyrirspurnir og möguleikinn á að þjálfa hefur verið til staðar. Ég hef staðið það af mér, ég hef verið sáttur við að vera hættur og maður hefur fengið tækifæri til að fylgjast með, meðal annars í störfum fyrir 365 miðla," segir Logi.

Fyrsti leikur Víkinga undir stjórn Loga verður á laugardaginn gegn KA.

„Við þurfum að búa til meiri stöðugleika í þessu liði. Það hefur verið einkenni þessa liðs að undanförnu að það spilar glimrandi gegn KR en svo fylgja ekki eins góðir leikir í kjölfarið. Ég ætla að reyna að búa til góða liðsheild, við vitum allir hvað þessir menn kunna og geta í fótbolta. Við þurfum að búa til einfaldar leiðir og einfaldar skipanir."

„KA er mjög sterkt lið sem hefur komið af fítonskrafti inn í deildina í upphafi. Liðið tapaði gegn Stjörnunni í leik þar sem jafntefli hefði kannski verið sanngjörn niðurstaða. Þetta er lið sem gefst ekki upp og er líkamlega sterkt. Við þurfum að vera tilbúnir í þann slag að mæta þessu liði," segir Logi en Víkingar hafa þrjú stig að loknum fjórum umferðum.

Róbert Örn Óskarsson, markvörður Víkinga, var ekki með í tapinu gegn Breiðabliki í síðustu umferð.

„Það er æfing á eftir og þá kemur það í ljós. Hann æfði að einhverju leyti í gær en tók ekki þátt í spili eða slíku. Ég vona það auðvitað að hann verði klár á laugardag," segir Logi.
Athugasemdir
banner
banner
banner