Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fös 24. júní 2016 21:58
Daníel Rúnarsson
Davíð: Leiðinlegt að það séu ekki fleiri á vellinum
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Davíð Þór Viðarsson fyrirliði FH var sáttur með 1-0 sigur sinna manna á Fylki í kvöld þó ekki hafi verið mikill glæsibragur yfir spilamennsku liðsins.

"Þetta var nóg í dag en það stóð samt tæpt. Við áttum að vera búnir að klára þetta mikið fyrr, fengum tvö algjör dauðafæri og nokkra ágætis sénsa. En við héldum allavega út og erum búnir að vera að gera það síðustu leiki."

FH-liðið byrjaði leikinn af krafti en dalaði þegar leið á fyrri hálfleikinn og sömu sögu var að segja af þeim seinni.

"Við missum aðeins taktinn, hættum að keyra upp tempóið eins og við gerðum í byrjun þegar þeir áttu erfitt með að halda í við okkur. Förum aðeins niður á þeirra tempó og þá verður meira basl á okkur. Svo er það líka oft þegar þú ert 1-0 yfir, sérstaklega í seinni hálfleik, að maður vill bara halda forystunni. Þó svo að við hefðum viljað gera meira með boltann þá vörðumst við nú samt vel og þeir sköpuðu sér ekkert."

Hafnfirðingar sitja á toppnum með 20 stig en leikurinn í kvöld var þriðji 1-0 sigur liðsins í röð.

"Við erum kannski ekki búnir að spila frábærlega en það er hrikalega mikilvægt að vera búnir að halda markinu hreinu núna þrjá leiki í röð og við erum bara búnir að fá fjögur mörk á okkur í 9 leikjum sem er virkilega öflugt. En við viljum skora fleiri mörk og klára leikina fyrr, eins og var tækifæri til í dag. En það væri ósanngjarnt að vera að kvarta yfir að vera með 20 stig í efsta sæti"

Leikurinn í kvöld fór fram í skugga Evrópumótsins í Frakklandi, finnst leikmönnum ekkert erfitt að gíra sig upp í Pepsi-deildina í miðju EM-æði?

"Það er helst leiðinlegt með áhorfendur að það séu ekki fleiri á vellinum en það er ekki skrítið þegar það eru allir úti í Frakklandi. Við erum að æfa á fullu og það er ágætis tempó á æfingunum. Við hefðum ekki viljað spila þessa leiki eftir EM. Við erum að fara í svaka törn, komnir áfram í bikarnum og erum að byrja í evrópumótinu okkar. Í fullkomnum heimi hefðum við getað byrjað mótið fyrr og endað seinna en það er víst ekki þannig." sagði Davíð að lokum.
Athugasemdir
banner
banner