banner
   fös 24. júní 2016 12:15
Elvar Geir Magnússon
Annecy
Harry Kane: Gerum allt til að forðast óvænt tap gegn Íslandi
Icelandair
Kane fagnar marki.
Kane fagnar marki.
Mynd: Getty Images
„Ég er ekki þreyttur. Ég er klár í slaginn gegn Íslandi," segir sóknarmaðurinn Harry Kane en flestir búast við því að hann byrji í fremstu víglínu í leiknum á mánudag.

Englendingar eru með sínar bækistöðvar í Chantilly í norðurhluta Frakklands og Kane sat fyrir svörum á fréttamannafundi.

„Við viljum vinna Ísland og sjá hvaða mótherja við fáum næst. Við teljum okkur geta unnið alla."

„Þetta er klárlega mót sem við getum unnið. Við erum eitt besta lið mótsins. Við höfum mikla trú á eigin getu."

Á meðan Ísland hefur teflt fram sama byrjunarliði í öllum þremur leikjum sínum virðist Roy Hodgson, þjálfari Englands, ekki hafa fundið sitt sterkasta lið.

„Það er hluti af mótinu að rótera mannskapnum. Við erum allir tilbúnir þegar kallið kemur. Við erum með frábæran hóp og hægt að gera breytingar."

Kane var spurður út í skandalinn sem yrði ef Ísland myndi slá England út.

„Við gerum okkar besta til í að koma í veg fyrir að það gerist en furðulegir hlutir hafa gerst í fótboltanum. Ísland hefur staðið sig vel í sínum leikjum og eru einbeittir í því sem þeir gera. Ef þeir liggja til baka þurfum við að leysa úr því. Ef við ætlum að fara áfram verðum við að eiga svör við leikaðferð Íslands," segir Kane.
Athugasemdir
banner
banner
banner