Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   sun 24. september 2017 07:00
Elvar Geir Magnússon
Álitsgjafar spá í það sem skiptir máli fyrir lokaumferðir Pepsi
Álitsgjafarnir spá Ólsurum falli.
Álitsgjafarnir spá Ólsurum falli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Rúnar er kominn með 18 mörk. Markametið er 19 mörk.
Andri Rúnar er kominn með 18 mörk. Markametið er 19 mörk.
Mynd: Raggi Óla
Fallbaráttan.
Fallbaráttan.
Mynd: Fótbolti.net/Samsett
Evrópubaráttan.
Evrópubaráttan.
Mynd: Fótbolti.net/Samsett
Stjarnan er í öðru sætinu.
Stjarnan er í öðru sætinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nær KR að lauma sér í Evrópusæti?
Nær KR að lauma sér í Evrópusæti?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvar endar FH?
Hvar endar FH?
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hvaða lið fellur með Skagamönnum? Hvaða lið fara til Evrópu með Val og ÍBV? Slær Andri Rúnar markametið?

Það eru tvær umferðir eftir af Pepsi-deild karla og við fengum gott fólk til að rýna í spákúlur sínar.



Edda Sif Pálsdóttir, RÚV:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Útlitið er orðið ansi svart hjá Víkingi Ó. sem er miður. Ég vonast eftir einhvers konar Ejub-kraftaverki, þó ekki á kostnað ÍBV, en er hrædd um að vesturlandið muni ekki eiga fulltrúa í Pepsi-deildinni að ári.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Valur, Stjarnan og FH. Að verja ekki titilinn, tapa bikarúrslitum og komast í ofanálag ekki í Evrópukeppni væri bara of mikið. #krexit

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Hann slær það – er kominn alltof nálægt því til að a.m.k. jafna það ekki. Og það væri bara mjög hressandi að sjá það slegið, þó að það yrði líka ákeðinn skellur fyrir TG-klúbbinn ég neita því ekki.



Snorri Sturluson, SportTv:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Það er gjörsamlega ómögulegt að segja til um það hverjir falla með Skagamönnum – og ákveðinn léttir að geta sveigt hjá því að fella slíkan dóm. Lokahnykkur fallbaráttu er eiginlega fyrirbæri sem ekki lýtur neinum lögmálum og þar gerast algjörlega ófyrirsjáanlegir hlutir. Það eru umtalsverðir miðilshæfileikar í ættinni minni, sjáendur á hverju strái, en ég get ómögulega spáð fyrir um það hverjir falla. Samt. Ólsarar eru líklegir, einfaldlega vegna stöðunnar á leikmannahópnum.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Leikur Stjörnunnar og Vals er lykilleikur í baráttunni um Evrópusæti; ef Valur vinnur þann leik og KR vinnur Fjölni er leikur KR og Stjörnunnar í lokaumferðinni hreinn og klár úrslitaleikur um Evrópusæti. Allt opið. Ef Stjarnan hins vegar vinnur Val er keppni formlega lokið. FH-ingar ættu, samkvæmt öllum sólarmerkjum, að vinna a.m.k. annan af lokaleikjunum tveimur. Kalt mat: Stjarnan og FH.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Það eru allar líkur á því að Andri Rúnar a.m.k. jafni markametið, einfaldlega vegna þess að hann virðist voða lítið vera að spá í það. Ef hann mætir til leiks gegn KA og Fjölni án þess að velta þessu meti of mikið fyrir sér skorar hann í allavega öðrum leiknum, ef ekki báðum.



Tómas Þór Þórðarson, 365:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Eins mikið og ég hélt því fram að fallstigamet yrði slegið virðist það vera að springa í andlitið á mér. Ég sé Ólafsvíkinga bara ekki fá fleiri stig úr því sem komið er og falla með frændum sínum á vesturlandinu eftir tap á Skaganum.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Þetta endar held ég eins og staðan er núna. Stjarnan og FH vinna að minnsta kosti einn leik í viðbót og klára dæmið. Svo er ég ekkert alveg viss um að KR nái að klára Fjölnismenn svona vængbrotnir á útivelli á sunnudaginn.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Andri Rúnar bætir þetta markamet. KA-menn munu reynast honum erfiðir en hann gæti jafnað það um helgina. Ég horfi til lokaumferðarinnar þar sem ekkert verður undir hjá Grindavík og Fjölni. Það gæti orðið markaveisla. Sé Andra fara í 20, ef ekki bara 21!



Hjörtur Hjartarson, Akraborginni:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Víkingur Ó. Liðið er augljóslega í verstu stöðunni. Að auki hefur varnarleikur liðsins undanfarið verið hræðilegur sem gerir þetta allt saman heldur vonlítið.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Auðveldast er að spá FH og Stjörnunni 2. og 3.sætinu. Væri samt gaman að fá hreinan úrslitaleik í síðustu umferðinni á milli KR og Stjörnunnar.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Hann slær það. Skorar ekkert í næsta en tvö í síðasta leiknum á síðasta korterinu. Geggjuð saga!



Guðmundur Hilmarsson, Morgunblaðinu:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Ég spáði því fyrir mótið að það kæmi í hlut vesturlandsliðanna að kveðja deildina. Eitt er farið og Skagamenn taka Ólsara með sér niður í lokaumferðinni.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Engin Evrópa hjá KR-ingum á næsta tímabili. Stjarnan og FH sigla til Evrópu með Valsmönnum.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Já ég ætla að spá því að Bolvíkingurinn slái metið. Honum tekst ekki að skora gegn KA á sunnudaginn en í lokaleiknum gegn Fjölni halda honum engin bönd og hann skellir í tvennu og kemur sér í 20 mörk.



Ingólfur Sigurðsson, sparkspekingur:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Miðað við stöðuna eins og hún er í dag er ég hræddur um að Víkingur Ólafsvík fari niður. Ég vona þó að hlutirnir falli með þeim og þeir haldi sér uppi.

Hvaða lið fara í Evrópu?
FH og KR. Hingað til hef ég verið svartsýnn fyrir hönd KR-inga um að ná Evrópusæti, þar sem þeir hafa ekki náð stöðugleika á millli leikja, en ég spái því að Valur vinni Stjörnuna á meðan KR vinnur Fjölni í næstu umferð. Þá fáum við úrslitaleik um Evrópusæti milli KR og Stjörnunnar í lokaleik.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Andri Rúnar skorar 20 mörk ef hann nær að halda köldum haus. Ef hann hugsar um að spila fyrir liðið koma mörkin sjálfkrafa til hans. Mark my words, Andri.



Einar Örn Jónsson, RÚV:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Ég er pínu hræddur um að Víkingur Ó. fari niður. Þetta er samt allt svo jafnt og opið að það er vel líklegt að þeir púlli the great escape.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Ég held að Evrópubaráttan sé nánast búin.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Ég held hann jafni metið en slái það ekki. Það eru álög á þessu fjandans 20. marki og þeim verður ekki aflétt þetta árið.



Stefán Árni Pálsson, Vísi:

Hverjir falla með Skagamönnum?
Því miður fyrir Ólsara þá held ég að það verði ekki nóg fyrir þá að vinna Skagamenn í síðustu umferð. Þeir fara því niður.

Hvaða lið fara í Evrópu?
Stjarnan vinnur Val í næstu umferð og FH tekur tvo síðustu leikina. Valur, FH og Stjarnan fara í Euro.

Mun Andri Rúnar ná að slá markametið eða jafna það?
Andri setur þrennu í lokaumferðinni gegn Fjölni og slær markametið. Hann skorar aftur á móti ekki gegn KA um helgina.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner