Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 24. október 2014 13:14
Magnús Már Einarsson
Finnur Orri: Blikar tóku þessu mjög fagmannlega
Finnur Orri mættur í FH treyjuna.
Finnur Orri mættur í FH treyjuna.
Mynd: FH
,,Mér leið vel hjá Breiðabliki og það er spurning hvort manni hafi liðið of vel.''
,,Mér leið vel hjá Breiðabliki og það er spurning hvort manni hafi liðið of vel.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,KR er alltaf KR og þeir voru mjög spennandi.  Mér fannst þetta vera réttara og mér finnst þetta vera mjög spennandi.''
,,KR er alltaf KR og þeir voru mjög spennandi. Mér fannst þetta vera réttara og mér finnst þetta vera mjög spennandi.''
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Mér finnst þetta vera heillandi klúbbur miðað við það sem þeir hafa verið að gera undanfarin ár. Þetta er spennandi lið með spennandi stefnu og þeir eru með gott þjálfarateymi," sagði Finnur Orri Margeirsson við Fótbolta.net í dag eftir að hann skrifaði undir þriggja ára samning við FH.

Finnur Orri hefur ákveðið að yfirgefa Breiðablik eftir að hafa leikið með félaginu allan sinn feril.

,,Ég held að það hafi verið gott fyrir mig að breyta til. Mér leið vel hjá Breiðabliki og það er spurning hvort manni hafi liðið of vel. Eins góður klúbbur og Breiðablik er þá fannst mér ég þurfa nýja áskorun. Ég tel það vera mjög krefjandi verkefni að fara í FH og ég mun reyna að standa mig," sagði Finnur sem segist ekki hafa verið ósáttur með eitthvað sérstakt hjá Blikum.

,,Það er alltaf eitthvað sem má gera betur en það var ekki það sem var einhver áhrifavaldur hjá mér. Þetta snérist algjörlega um fótboltalegar ástæður og metnað til þess að sýna smá framfarir," sagði Finnur en hvernig voru viðbrögð Blika við tíðindunum.

,,Þeir tóku þessu mjög fagmannlega. Þeir gerðu allt til þess að halda mér. Ég var hrikalega ánægður með þá. Það var tekið á hendina á manni og mér óskað góðs gengis. Þeir sögðu að það væri leiðinlegt að missa mig en óskuðu mér persónulega góðs gengis."

Erfitt val milli FH og KR
KR vildi einnig fá Finn í sínar raðir en hann ákvað á endanum að velja FH. Hann mun leika á miðjunni þar en ekki í vörninni líkt og stundum hjá Blikum.

,,KR er alltaf KR og þeir voru mjög spennandi. Mér fannst þetta vera réttara og mér finnst þetta vera mjög spennandi. Það var hvorki auðveld ákvörðun að fara frá Breiðabliki né að velja á milli þessara tveggja liða sem eru bæði frábær."

Stefnir á að spila erlendis síðar
Finnur Orri segist ekki hafa verið nálægt því að fara út í atvinnumennsku að þessu sinni.

,,Það var ekkert búið að hafa samband af viti til þess að það væri eitthvað sem ég gæti skoðað. Maður vill gefa því sénsinn í framtíðinni að prófa að spila erlendis. Ég tel mig hafa getuna í það en það þarf að finna tímapunktinn í að komast þangað. Ég tel að þetta geti hjálpað mér að ná ákveðnum framförum til að maður geti sannað að maður geti spilað erlendis."

Finnur neitar því ekki að það verði furðulegt að mæta sínum gömlu félögum í Blikum á næsta tímabili. ,,Það verður mjög skrýtið. Það er eitthvað sem ég þekki ekki og það verða örugglega skrýtnar tilfinningar í maganum. Reyndar voru þeir að skipta um klefa svo ég get farið aftur í gamla klefann minn," sagði Finnur léttur í bragði.
Athugasemdir
banner
banner