Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mán 24. nóvember 2014 15:45
Magnús Már Einarsson
Málefni Víkings
Milos: Vildum hafa Ingvar í betra formi
Ingvar Þór Kale.
Ingvar Þór Kale.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Milos Milojevic, annar af þjálfurum Víkings.
Milos Milojevic, annar af þjálfurum Víkings.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingvar í leik með Víkingi í sumar.
Ingvar í leik með Víkingi í sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
,,Þetta var fagleg ákvörðun hjá okkar Óla (Þórðarsyni) að leita að öðrum markmanni," sagði Milos Milojevic annar af þjálfurum Víkings við Fótbolta.net í dag um þá ákvörðun að gera ekki nýjan samning við markvörðinn Ingvar Þór Kale.

Danski markvörðurinn Thomas Nielsen er að öllum líkindum á leið í Víking en upphaflega vildu Milos og Ólafur fá hann til að berjast við Ingvar um sæti í liðinu.

,,Við byrjuðum á því að leita að markverði til að veita Ingvari samkeppni og þá vildum við semja upp á nýtt við hann. Það gekk ekki þar sem það var langt á milli. Það voru engin leiðindi. Við ræddum við Kale og biðum í tvær vikur til að sjá hvað hann myndi gera."

,,Draumastaðan okkar Óla var að halda honum og fá annan markvörð sem var hjá okkur á reynslu. Ákvörðun okkar Óla á endanum var að þetta væri langbest. Við viljum ekki hafa óánægða menn hjá okkur."


Uppaldir leikmenn ekki ókeypis
Hinn 31 árs gamli Ingvar er uppalinn hjá Víkingi og margir stuðningsmenn félagsins hafa furðað sig á ákvörðuninni um að semja ekki aftur við hann.

,,Það er alltaf óvinsælt að láta menn fara sem eru uppaldir í Víkingi. Það eru samt breyttir tímar. Þessir uppöldu leikmenn eru ekki ókeypis."

,,Það er alltaf erfið ákvörðun ef þú hugsar frá hjartanu en þjálfarinn tekur á endanum ákvörðun út frá faglegu sjónarmiði og hann tekur bæði skemmtilegar og óskemmtilegar ákvarðanir."


Vildu hafa Ingvar í betra formi
Milos segir að þjálfararnir hafi meðal annars ekki verið ánægðir með formið sem Ingvar var í.

,,Ingvar byrjaði mótið mjög vel en síðan datt hann niður í formi. Ef við hefðum verið með þennan gaur (Danann) í sumar þá hefðum við náð ennþá hærra. Hann hefði getað komið inn ef formið hjá Ingvari hefði versnað aðeins. Hann hefði getað komið inn og spilað 6-7 leiki. Ef hann hefði staðið sig hefði hann getað verið númer eitt en við hefðum líka haft Ingvar," sagði Milos og hélt áfram.

,,Við vildum hafa Ingvar í betra formi, það er engin spurning. Við teljum að ef Ingvar væri í miklu betra formi þá sé hann besti markvörður á Íslandi. Við vitum hvað Ingvar getur og í sínu besta formi er hann öðruvísi markmaður en í dag. Hann segist sjálfur vera í góðu formi en á endanum er það þjálfari sem tekur ákvörðun um það hvort leikmaður sé í góðu formi eða ekki."

,,Með því að vera í góðu formi gæti Ingvar framlengt feril sinn um 3-4 ár að mínu mati. Þú sérð þessa stóru kalla hjá FH, Atla Viðar og félaga, sem spila lengi af því að þeir hugsa vel um sig."

Daninn hefði verið númer eitt
Nielsen æfði með Víkingi í síðustu viku og Milos segir að hann hefði verið tekinn fram yfir Ingvar í dag.

,,Þessi strákur leit mjög vel út og við myndum velja hann númer eitt ef mótið myndi byrja á morgun. Ingvar þarf að vinna í sumum hlutum og hann veit af því sjálfur. Ef mótið myndi byrja á morgun hefðum við valið hinn miðað við æfingarnar."

,,Við vildum samt ekki að semja við Danann sérstaklega sem númer eitt eða númer tvö. Það er með markverði eins og aðrar stöður. Ef ég fæ tvo hafsenta þá segi ég ekki að annar sé númer eitt og hinn tvo. Það eru æfingaleikir og við erum með lengsta undirbúningstímabil í heimi. Við erum með 22-25 æfingaleiki fyrir mót og menn fá tækifæri til að sýna sig og sanna fyrir fyrsta leik."


Sigurður Hrannar Björnsson var varamarkvörður hjá Víkingi í sumar en hann gæti verið á leið í Fram.

,, Diddi er góður markvörður en þarf smá reynslu. Ef Diddi væri tveimur árum eldri og alvöru samkeppni fyrir Kale þá hefðum við aldrei farið að leita erlendis. Við leitum fyrst heima en það er erfitt að keppa við þessi þrjú topplið," sagði Milos.
Athugasemdir
banner
banner
banner