þri 24. nóvember 2015 06:00
Magnús Már Einarsson
Fimm ungir semja við Gróttu
Fremri röð frá vinstri: Úlfur Blandon, þjálfari liðsins, Dagur Guðjónsson, Agnar Guðjónsson og Hilmar S Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar. Aftari röð frá vinstri: Davíð Fannar Ragnarsson, Kristófer Orri Pétursson og Bjarni Rögnvaldsson.
Fremri röð frá vinstri: Úlfur Blandon, þjálfari liðsins, Dagur Guðjónsson, Agnar Guðjónsson og Hilmar S Sigurðsson, formaður knattspyrnudeildar. Aftari röð frá vinstri: Davíð Fannar Ragnarsson, Kristófer Orri Pétursson og Bjarni Rögnvaldsson.
Mynd: Grótta
Fimm ungir leikmenn hafa skrifað undir meistaraflokkssamninga við Gróttu.

Davíð Fannar Ragnarsson er vinstri bakvörður. Í október fór hann á reynslu til FK Jerv í Noregi en Davíð Fannar hefur verið fyrirliði 2. flokks Gróttu síðastliðin tvö ár.

Hann lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki sumarið 2012, þá á eldra ári í 3. flokki. Erfið meiðsli settu þá strik í reikninginn, svo hann hefur aðeins leikið einn leik með meistaraflokki síðan.

Bjarni Rögnvaldsson er örvfættur miðjumaður með mjög góðan vinstri fót. Hann kom við sögu í fjórum leikjum Gróttu í 2. deild sumarið 2014. Davið Fannar og Bjarni eru báðir fæddir 1996 og eiga því sameiginlegt að hafa nýlokið vegferð sinni í gegnum yngri flokka.

Tvíburarnir Agnar og Dagur Guðjónssynir eru fæddir 1997. Agnar er sóknarmaður en hann sýndi frábæra takta í Lengjubikarnum síðastliðið vor og skoraði m.a. á móti úrvalsdeildarliðum Víkings og Leiknis. Auk þess kom Agnar við sögu í sex leikjum í 1. deildinni í sumar.

Dagur er hægri bakvörður sem getur einnig leyst stöður framar á vellinum. Hann lék tvo leiki með meistaraflokki Gróttu sumarið 2014.

Kristófer Orri Pétursson er fæddur 1998 en hann er útsjónarsamur miðjumaður sem var á reynslu hjá Brommapojkarna í Svíþjóð í haust.

Leikmennirnir eru uppaldir hjá félaginu og hafa allir tekið þátt í úrtaksæfingum KSÍ. Allir voru þeir lykilmenn í góðum árangri 2. flokks félagsins sem vann sig upp í B-deild haustið 2014 og hélt sæti sínu þar í sumar. Samningarnir eru til tveggja ára.

„Það er stefna knattspyrnudeildarinnar að byggja á ungum og uppöldum Gróttuleikmönnum sem munu fá tækifæri til þess að sanna sig með meistaraflokki. Þetta er mikilvægur áfangi í að ungu leikmennirnir hafi trú á okkar plönum og vilji taka þátt í þessari uppbyggingu hjá félaginu,“ segir Hilmar S Sigurðsson formaður knattspyrnudeildar Gróttu.
Athugasemdir
banner
banner
banner