Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 24. nóvember 2015 17:30
Elvar Geir Magnússon
Januzaj gerði stór mistök
Januzaj hefur alls ekki fundið sig hjá Dortmund og er í algjöru aukahlutverki.
Januzaj hefur alls ekki fundið sig hjá Dortmund og er í algjöru aukahlutverki.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Lánsdvöl Adnan Januzaj hjá Borussia Dortmund frá Manchester United hefur verið misheppnuð. Belginn ungi hefur ekki fengið byrjunarliðsleik í þýsku deildinni og hefur ekki náð að skora mark.

„Sú hernaðaráætlun að fara til að fá meiri spiltíma og heilla Louis van Gaal hefur algjörlega misheppnast," segir Rob Dawson, íþróttafréttamaður Manchester Evening News.

„Staðreyndin er sú að hann hefur byrjað helmingi fleiri leiki fyrir United á tímabilinu en hann hefur gert hjá Dortmund og hann yfirgaf Old Trafford í ágúst. Ef það er satt að það hafi verið ákvörðun Januzaj að fara þá gerði hann stór mistök."

Dawson segir að Januzaj hafi átt frekar að fara á lán innan Englands.

„Þú þarft bara að líta á síðasta landsliðshóp Englands. Af 21 leikmanni í hópnum hafa níu leikmenn verið lánaðir frá félögunum þar sem þeir eru núna að spila reglulega. Í heild hafa 14 leikmenn farið á lán á einhverjum tímapunkti á ferli sínum," segir Dawson.

„Ef félag í ensku úrvalsdeildinni lánar leikmann í þeirri von að hann snúi aftur betur til þess búinn að spila í ensku úrvalsdeildinni er rökrétt að hann öðlist reynslu á Englandi. David Beckham fór til Preston og Danny Welbeck og Jonny Evens til Sunderland. Jesse Lingard braut sér leið inn í aðallið Manchester United eftir að hafa farið víða á lán."

Januzaj fór til Dortmund í von um meiri spiltíma en á þeim tíma vissi hann ekki að Memphis Depay myndi detta í lægð og meiðsli myndu herja á sóknarlínu Manchester United. Louis van Gaal gaf til kynna í síðustu viku að það hafi verið vilji Januzaj að fara til Dortmund skömmu áður en félagaskiptaglugganum var lokað.

„Það hefði verið betra að fara sömu leið á toppinn og Lingard og Beckham gerðu," segir Dawson.
Athugasemdir
banner
banner
banner