þri 25. apríl 2017 20:38
Hafliði Breiðfjörð
England: Terry sneri aftur í góðum sigri Chelsea
John Terry kemur inná í kvöld.
John Terry kemur inná í kvöld.
Mynd: Getty Images
Leikmenn Chelsea fagna á brúnni í kvöld.
Leikmenn Chelsea fagna á brúnni í kvöld.
Mynd: Getty Images
Chelsea 4 - 2 Southampton
1-0 Eden Hazard ('5 )
1-1 Oriol Romeu ('24 )
2-1 Gary Cahill ('45 )
3-1 Diego Costa ('54 )
4-1 Diego Costa ('89 )
4-2 Ryan Bertrand ('90 )

Það var hörkufjör og skemmtun þegar Chelsea tók á móti Southampton í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og vann með 4-2 sigri.

Eden Hazard kom heimamönnum yfir strax á fimmtu mínútu leiksins eftir undirbúinng Diego Costa sem sendi á hann inn í teiginn.

Gestirnir í Southampton jöfnuðu svo metin um miðjan fyrri hálfleikinn. Thibaut Courtouis markvörður Chelsea varði skot Manolo Gabbiadini en boltinn barst til Oriol Romeo sem fylgdi vel á eftir og skoraði. Fyrsta markið í rúmlega ár frá þessum fyrrverandi miðjumanni Chelsea.

Gary Cahill kom Chelsea svo yfir að nýju rétt fyrir lok fyrri hálfleiks með góðum skalla í kjölfar hornspyrnu en þar með stal hann boltanum frá Diego Costa sem ætlaði í hjólhestaspyrnu.

Það var svo Costa sjálfur sem bætti við þriðja markinu í upphafi síðari hálfleiksins eftir fyrirgjöf Cesc Fabregas. Þetta var 50. mark Costa sem hefði örugglega kosið að ná því í hjólhestaspyrnunni en það kom þó á endanum. Það er þó önnur tölfræði við þetta mark, því þetta var 103 stoðsending Fabregas í deildinni og hann kominn með einni meira en Frank Lampard. Aðeins einn leikmaður hefur náð fleiri stoðsendingum, Ryan Giggs fór í 162.

Þegar fjórar mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma sneri John Terry aftur í lið Chelsea í sínum fyrsta leik síðan í nóvember. Hans 714 leikur fyrir félagið en á dögunum var staðfest að hann hættir hjá þeim í sumar.

Í lokin bætti Diego Costa svo fjórða markinu við eftir að hafa farið illa með vörn Southampton liðsins og þrumað á markið. Ryan Bertrand minnkaði svo muninn í uppbótartíma.

Lokastaðan 4-2 fyrir Chelsea sem styrkir stöðu sína á toppi deildarinnar þar sem þeir hafa nú 7 stiga forskot.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner