mið 25. apríl 2018 11:49
Magnús Már Einarsson
Sigurlás Þorleifsson látinn
Mynd: Internetið
Sigurlás Þorleifsson, fyrrum landsliðsmaður og fyrrum leikmaður og þjálfari ÍBV, lést í gær. Sigurlás, sem var sextugur, missti meðvitund í Heimakletti í Vestmannaeyjum og endurlífgunaraðgerðir báru ekki árangur.

Sigurlás skoraði tvö mörk í tíu landsleikjum á ferli sínum en hann lék með ÍBV um áraraðir. Sigurlás er þriðji markahæsti leikmaður ÍBV í efstu deild en hann skoraði 60 mörk á ferli sínum þar.

Sigurlás spilaði einnig í Svíþjóð á ferli sínum sem og með Víkingi R. og Selfossi.

Síðar þjálfaði Sigurlás bæði meistaraflokk karla og meistaraflokk kvenna hjá ÍBV sem og meistaraflokk karla hjá Selfossi og Stjörnunni. Greint er frá andláti hans á Facebooksíðu Grunnskólans í Vestmannaeyjum í dag.

Fótbolti.net sendir ættingjum og vinum Sigurláss dýpstu samúðarkveðjur.

Af Facebook síðu Grunnskólans í Vestmannaeyjum
Í gær fengum við þær sorgarfregnir að Sigurlás Þorleifsson skólastjóri hefði fallið frá. Sigurlás var skólastjóri við GRV í fimm ár en hefur starfað við skólann í fjöldamörg ár, bæði sem kennari og aðstoðarskólastjóri í Hamarsskóla, þetta er því mikill missir fyrir starfsfólk og nemendur.
Umsjónarkennarar tóku á móti nemendum sínum í morgun og færðu þeim fregnirnar og áttu rólega stund í sínum bekk. Skólastarf mun vera með eðlilegum hætti í dag fram að hádegi, en skóla mun ljúka kl. 13:00 í dag, miðvikudaginn 25. apríl..
Hugur okkar er núna hjá fjölskyldu Sigurlásar.
Með vinsemd,
stjórnendur GRV

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner