Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   mán 25. maí 2015 18:16
Ívan Guðjón Baldursson
Ítalía: Sætur sigur Roma tryggði meistaradeildarsæti
Mynd: Getty Images
Lazio 1 - 2 Roma
0-1 Juan Iturbe ('73)
1-1 Filip Djordjevic ('82)
1-2 Mapou Yanga-Mbiwa ('85)

Lazio tók á móti Roma í erkifjendaslag og úrslitaleik um 2. sæti deildarinnar sem gefur beinan þátttökurétt í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili.

Fyrir leikinn var Lazio í 3. sæti, sem gefur þátttökurétt í undankeppni Meistaradeildarinnar, einu stigi eftir nágrönnunum.

Roma mætti til að verjast á Ólympíuleikvanginum í Róm, sem er heimavöllur beggja liða, og gekk það leikskipulag fullkomlega upp hjá Rudi Garcia og lærlingum hans.

Lazio fékk að halda boltanum og átti mikið af skotum en fá þeirra rötuðu á markið og skoraði Roma svo úr sínu fyrsta skoti á markið á 73. mínútu, þegar Juan Iturbe slapp í gegn eftir sendingu frá Victor Ibarbo.

Lazio blés enn meira til sóknar eftir að hafa lent undir og skilaði það sér með marki frá Filip Djordjevic eftir atgang í teignum þar sem Miroslav Klose náði að skalla knöttinn á Djordjevic sem skoraði.

Lazio hélt áfram að sækja en Roma fékk aukaspyrnu þegar fimm mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma. Miralem Pjanic fann varnarmanninn Mapou Yanga-Mbiwa sem skoraði með góðum skalla og tryggði mikilvægan sigur.

Það er aðeins ein umferð eftir af tímabilinu þar sem Lazio á annan úrslitaleik framundan. Lazio heimsækir þá Napoli og þarf jafntefli eða sigur til að tryggja sér 3. sætið. Hafi Napoli betur í viðureigninni endar Lazio í 4. sæti og fer í riðlakeppni Evrópudeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner