banner
   mið 25. maí 2016 11:30
Magnús Már Einarsson
Barcelona með fótboltaskóla á Íslandi fyrir stúlkur
Meistaraflokkslið Barcelona kemur til Íslands í haust.
Meistaraflokkslið Barcelona kemur til Íslands í haust.
Mynd: Getty Images
Í fyrsta sinn býður Futbol Club Barcelona í samvinnu við Knattspyrnuakademíu Íslands upp á æfingabúðir sem eingöngu eru ætlaðar stúlkum.

„Íslensk kvennaknattspyrna er kraftmikil og gæði hennar á heimsmælikvarða. Þess vegna horfir Barça nú til Íslands en atvinnumennska komst á með kvennaliði þeirra í fyrra og þar á bæ leggja menn nú mikla áherslu á kvennaboltann."

„Það er sannarlega heiður að Barça, eitt öflugasta íþróttafélag heims, skuli velja Ísland til að bjóða eingöngu stúlkum, í fyrsta sinn, upp á æfingabúðir þar sem reyndir þjálfarar frá Barça þjálfa þátttakendur eftir æfingakerfi þeirra og miðla um leið þekkingu sinni til íslenskra þjálfara,"
segir í tilkynningu frá Knattspyrnuakademíunni.

Æfingabúðirnar verða á Valsvellinum dagana 8.­13. júlí. Þeim lýkur með hófi þar sem varaforseti Barcelona, Carles Vilarrubí i Carrió, mætir ásamt föruneyti sínu. Nánari upplýsingar um lokahófið verða veittar síðar.

Í haust er svo gert ráð fyrir að kvennalið FC Barcelona komi til Íslands og spili vináttuleik við úrvalslið úr Pepsi deildinni.

Skráning er hafin í æfingabúðirnar sem ætlaðar eru stúlkum á aldrinum 10­ til 16 ára.

Reiknað er með að færri komist að en vilja og þess vegna eru forráðamenn hvattir til að skrá stúlkurnar sínar sem fyrst á skráningarsíðu Knattspyrnuakademíu Íslands.

Allir þátttakendur munu fá til eignar Nike æfingagalla og fótbolta.
Athugasemdir
banner
banner
banner