mið 25. maí 2016 22:56
Ingólfur Sigurðsson
Endurhannar merki íslenskra liða - Merki KA vekur athygli
„Íslensk félög geta verið rosalega íhaldssöm og það er lítið um breytingar.“
„Íslensk félög geta verið rosalega íhaldssöm og það er lítið um breytingar.“
Mynd: Úr einkasafni
Vinstra megin er uppfærsla Antons Jónasar og hægra megin félagsmerki KA.
Vinstra megin er uppfærsla Antons Jónasar og hægra megin félagsmerki KA.
Mynd: Úr einkasafni
Svona kæmi merki Antons út á KA-treyjunni.
Svona kæmi merki Antons út á KA-treyjunni.
Mynd: Úr einkasafni
„Íslenski boltinn hefur verið að fá mikla athygli frá heimspressunni og þá skiptir máli að líta vel út,“ sagði Anton Jónas Illugason í samtali við Fótbolta.net en endurhönnun hans á félagsmerki KA hefur vakið athygli í vikunni. Endurhönnunin er einungis til gamans gerð en ekki er vitað hvort það sé á stefnuskrá KA að ráðast í slíkar framkvæmdir.

„Hugmyndin var aðallega að sýna fram á að það er hægt að uppfæra merki án þess að gera einhverjar róttækar breytingar. KA-merkið er ekki alslæmt og það þurfti bara aðeins að fríska upp á það. Merkið sjálft er mjög einfalt en ég myndi vilja sjá meiri tengingu við þann glæsilega bæ sem Akureyri er.“

Íslensk félög rosalega íhaldssöm

Anton Jónas, sem starfar sem framkvæmdarstjóri Víkings Ólafsvíkur, segir mörg íslensk lið megi gera betur þegar kemur að félagsmerkjum sínum. Flestir kynnist félögunum í gegnum netið nú til dags og því þurfa vefsíður og samfélagsmiðlar að líta vel út.

„Þetta er eitthvað sem hefur setið í mér í svolítinn tíma. Íslensk félög geta verið rosalega íhaldssöm og það er lítið um breytingar. Það má einmitt til gamans geta að árið 1936 breytti Valur merkinu sínu. Sólargeislarnir fóru úr því að vera albláir í rauða og bláa. Það fór misvel í fólk.“

Ensku liðin hentug fyrirmynd

Atvinnumannalið út í heimi endurhanna merkin sín reglulega og má í því samhengi nefna West Ham sem kynnti nýtt merki í vikunni. Anton Jónas segir að það þurfi að finna milliveg á þessum vettvangi.

„Við viljum kannski ekki alveg vera eins og MLS-deildin í Bandaríkjunum þar sem liðin gjörbreyta merkjum sínum nánast á tíu ára fresti. Ég er meira að horfa á ensku deildina sem fyrirmynd. Þar eru merkin ekki uppfærð jafn oft og minna um dramatískar breytingar.“

Skissar nýtt Valsmerki

En hvaða merki ætlar Anton Jónas næst að endurhanna? „Ég hef verið að leika mér við að skissa upp nýtt Valsmerki. Valur á að mínu mati eitt af flottustu merkjum deildarinnar en það hefur misst gæði sín eftir að það var sett á rafrænt form. Fuglinn mætti vera tignalegri. En við sjáum bara hvað framtíðin ber í skauti sér.“



Athugasemdir
banner
banner
banner