mið 25. maí 2016 20:00
Arnar Geir Halldórsson
Norski bikarinn: Hannes varði tvær vítaspyrnur - Matthías skoraði
Hannes Þór Halldórsson
Hannes Þór Halldórsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Matthías Vilhjálmsson
Matthías Vilhjálmsson
Mynd: Rosenborg
Það er bikarkvöld víðar en hér á klakanum í kvöld því fjölmargir leikir fóru fram í norska bikarnum.

Landsliðsmarkvörðurinn Hannes Þór Halldórsson stóð á milli stanganna þegar Bodö/Glimt gerði 3-3 jafntefli við Haugasund en Hannes og félagar fara áfram eftir sigur í vítaspyrnukeppni þar sem Hannes gerði sér lítið fyrir og varði tvær spyrnur.

Matthías Vilhjálmsson reyndist hetja Rosenborg þegar liðið vann eins marks sigur á Nest/Sötra í hörkuleik en Matthías kom Rosenborg í 2-1 á níundu mínútu leiksins og þannig var staðan allt þar til á 90.mínútu þegar Paal Andre Helland gerði endanlega út um leikinn. Guðmundur Þórarinsson var einnig í byrjunarliði Rosenborg en Hólmar Örn Eyjólfsson fékk hvíld og sat á varamannabekknum.

Kristinn Jónsson lék allan leikinn í vinstri bakverðinum hjá Sarpsborg þegar liðið vann Stjördals Blink og Aron Sigurðarson var í byrjunarliði Tromsö sem vann Odd 3-2 eftir framlengingu. Elías Már Ómarsson lék fyrsta klukkutímann í 3-1 sigri Valerenga á Vidar.

Steinþór Freyr Þorsteinsson var eini Íslendingurinn sem var í tapliði í kvöld en lið hans, Sandnes Ulf, tapaði 2-1 fyrir Sandefjord.

Úrslit Íslendingaliðanna í kvöld

Rosenborg 3-1 Nest/Sötra

Sarpsborg 3-0 Stjördals Blink

Tromsö 3-2 Odd

Valerenga 3-1 Vidar

Sandefjord 2-1 Sandnes Ulf

Bodö/Glimt 3-3 Haugasund Bodö/Glimt vann 7-6 eftir vítaspyrnukeppni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner