fim 25. maí 2017 20:30
Bjarni Þórarinn Hallfreðsson
Þrír miðverðir á innkaupalista Man Utd
Van Dijk verður eftirsóttur í sumar
Van Dijk verður eftirsóttur í sumar
Mynd: Getty Images
Evrópudeildarmeistarar Manchester United ætlar að kaupa miðvörð í sumar og eru þrír leikmenn sem koma til greina.

Þeir eru Michael Keane, leikmaður Burnley, Virgil van Dijk, leikmaður Southampton og Victor Lindelof, leikmaður Benfica.

Jose Mourinho, stjóri félagsins sagði í gær að hann hafði látið Ed Woodward fá lista af leikmönnum sem hann vill fá í sumar og samkvæmt Sky Sports voru miðverðirnir þrír á listanum.

Talið er að Manchester United muni kaupa einn af þessum þremur miðvörðum áður en næsta tímabil hefst í ágúst.

Keane ólst upp hjá Manchester United en var keyptur til Burnley fyrir tveimur og hálfu ári síðan á tvær milljónir punda. Síðan þá hefur hann leikið sinn fyrsta landsleik og spilað 90 leiki fyrir Burnley. Hann á eitt ár eftir af samningi sínum hjá Burnley.

Van Dijk er talinn verða eftirsóttasti miðvörðurinn í sumar. Sky Sports telur að Southampton muni ekki selja hann fyrir minna en 50 milljónir punda en Liverpool, Chelsea og Manchester City eru einnig á eftir Hollendingnum.

Lindelof er sænskur leikmaður Benfica og hefur verið orðaður við Manchester United í allan vetur. Manchester United var nálægt því að kaupa Svíann í janúar en hann mun líklega kosta um 40 milljónir punda.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner