mán 25. júlí 2016 22:10
Ívan Guðjón Baldursson
Pepsi-deildin: KR tapaði í Fossvoginum
Slæmt gengi KR ætlar engan endi að taka
Tufa gerði eina mark leiksins eftir rétt rúmlega 30 mínútna leik.
Tufa gerði eina mark leiksins eftir rétt rúmlega 30 mínútna leik.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Víkingur R. 1 - 0 KR
1-0 Vladimir Tufegdzic ('31)

Vladimir Tufegdzic, eða Tufa, skoraði eina mark leiksins er Víkingur R. hafði betur gegn KR í Fossvoginum.

Tufa skoraði með skoti fyrir utan vítateig eftir laglegt samspil Gary Martin og Óttars Magnúsar Karlssonar.

KR-ingar voru nálægt því að jafna skömmu síðar en Róbert Örn Óskarsson varði meistaralega eftir að skot Kennie Chopart fór af Dofra Snorrasyni og stefndi í mark Víkinga.

KR fékk gríðarlegt magn færa eftir opnunarmark Víkinga og virtust sóknarmenn liðsins vera að keppast við að brenna af færum og stöðva eigin sóknir. Í þau skipti sem boltinn hitti rammann var Róbert Örn tilbúinn á milli stanganna.

Hólmbert Aron Friðjónsson fékk frábært tækifæri til að jafna stundarfjórðungi fyrir leikslok þegar hann fékk knöttinn einn og óvaldaður við markteiginn en hitti hann ekki.

Lokamínúturnar voru æsispennandi þar sem KR-ingar settu allt sitt púður í sóknarleikinn og við það opnaðist vörnin þeirra. Alex Freyr Hilmarsson, sem kom inn af bekk heimamanna, var nálægt því að refsa þegar hann slapp í gegn en setti boltann í stöngina. Skömmu síðar fékk Jeppe Hansen skotfæri í markteig Víkinga en þrumaði knettinum framhjá markinu og 1-0 sigur Víkings staðreynd.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner