þri 25. júlí 2017 17:00
Magnús Már Einarsson
Heimir Guðjóns: Ekki hægt að spila leik og hlaupa bara í 90 mínútur
Mynd: Raggi Óla
„Við erum búnir að horfa á báða leikina sem þeir spiluðu í forkeppni Meistaradeildarinnar og leiki í deildina. Það eru bara tvær umferðir búnar í deildinni núna en þetta er lið sem kláraði titilinn mjög þægilega í fyrra. Þetta er besta lið Slóveníu og við vitum að þetta er verðugt verkefni," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, við Fótbolta.net um leikinn sem er framundan gegn Maribor á morgun.

FH-ingar fóru út til Slóveníu aðfaranótt sunnudags og hafa haft góðan tíma til undirbúnings fyrir leikinn á morgun.

„Það eru mjög fínar aðstæður hér og hótelið er flott. Við förum á æfingu á vellinum í kvöld og hann lítur vel. Það er allt til alls hér."

Maribor er mjög öflugt lið en það var síðast í riðlakeppni Meistaradeildarinnar árið 2014.

„Möguleikarnir eru ágætir en við þurfum að spila góðan leik. Við þurfum að vera sterkir varnarlega. Þeir eru með öfluga menn inni á miðjunni og frammi. Þeir eru fljótir og góðir sendingarmenn. Við þurfum að vera vel skipulagðir varnarlega."

„Við þurfum líka að geta haldið boltanum innan liðsins. Það er ekki hægt að spila leik og hlaupa bara í 90 mínútur plús. Við þurfum að geta haldið boltanum innan liðsins og spilað sóknarleik."


Sigurvegarinn í þessari viðureign fer í umspil um sæti í riðlakeppni Meistaradeildarinnar. Tapliðin í umspilinu fara beint inn í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Því er ljóst að sigurvegarinn úr leik FH og Maribor er á leið í riðlakeppni í vetur í annað hvort Meistaradeildinni eða Evrópudeildinni.

„Við erum fyrst og fremst að hugsa um að ná góðum úrslitum í þessum leik. Það er það sem við erum að fókusera á. Til að það gangi þá þurfum við að ná góðum leik," sagði Heimir aðspurður út í mikilvægi leiksins.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner