mán 25. ágúst 2014 16:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Vanvirðing eða ....?
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Róbert Haraldsson.
Róbert Haraldsson.
Mynd: Fótbolti.net
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Getty Images
Nú í sumar hef ég verið að þjálfa flottan hóp af drengjum í 3.flokki karla frá Dalvík, Ólafsfirði og Siglufirði. Knattspyrnufélögin Dalvík og KF ákváðu í vetur að senda tvö 11 manna lið til keppni til að búa til verkefni handa öllum drengjunum sem vildu æfa knattspyrnu. Þetta er kostnaðarsamt fyrir félögin, þar sem leikir liðanna tveggja eru allt frá því að vera á Suðurnesjum austur á Neskaupstað og vestur á Ísafjörð. Þetta hefur sloppið býsna vel og drengirnir spilað marga leiki og fengið mikla reynslu. Þegar mótherjarnir hafa komið hingað til okkar höfum við reynt að taka vel á móti liðunum. Boðið uppá kaffi fyrir fullorðna fólkið, stundum niðurskornir ávextir fyrir aðkomuliðið, jafnvel grillaðar pylsur í leikslok, auglýst leikina í heimabyggð, spilað á aðalvöllum félaganna og verið með þrjá reynslumikla dómara í flestum tilfellum. Það er verið að "reyna" að hafa smá umgjörð, þó að það hafi ekki alltaf tekist.

En hvernig hefur þetta verið þegar við heimsækjum "stóru" liðin á höfuðborgarsvæðinu. Í einu tilfellinu vorum við sendir að skipta um föt í stórri sundlaug, nokkrum kílómetrum frá leikvellinum sem var gervigrasvöllur - leikurinn fór fram í lok júní! Sem sagt engin búningsaðstaða við keppnisvöllinn og við fylltum vatnsbrúsana okkar í sjoppu sem var í næsta nágrenni og aðstoðardómararnir voru varamenn heimaliðsins! Í annarri ferð í höfuðborgina voru tveir dómarar í fyrri leiknum og í þeim seinni var einungis einn dómari mættur þegar leikurinn átti að hefjast og það endaði með því að einn af A-liðs mönnum mínum tók aðstoðardómarahlutverkið að sér allan leikinn og einn 4.flokks drengur úr heimaliðinu, svo að það væri hægt að spila leikinn! Í þriðja tilfellinu var spilað á lélegum gervigrasvelli við hliðina á aðalvellinum og flottu æfingasvæði heimaliðsins! Dómarar leiksins voru tveir í hvorum leik! Hvað er í gangi þarna fyrir sunnan?

Þess má geta að í dæmunum hér að ofan eru heimaliðin félög í úrvalsdeildinni og 1.deildinni. Mitt álit er að hér er verið að sýna þessum ungu efnilegu knattspyrnumönnum mikla vanvirðingu. Mínir drengir voru mjög hissa á þessum vinnubrögðum og vanvirðingin er ekki síður gagnvart ungu drengjunum í heimaliðunum. Oft hefur verið rætt um að þessi aldur eigi mjög erfitt með skap sitt og hegðun leikmanna oft ekki til fyrirmyndar á leikvellinum. Hverju er hægt að búast við þegar dómarar leikjanna, í mörgum tilfellum, eru óreyndir og ráða einfaldlega ekki við að dæma leiki hjá 3.flokki karla. Og klárlega í mörgum tilfellum verið að redda "einhverjum" á síðustu stundu.

Það má koma fram í þessu samhengi að í 21 leik hjá mínu liði hafa leikmenn fengið 11 gul spjöld og ekkert rautt, þannig að ég er ekki að nefna þetta vegna þess að drengirnir mínir hafa verið að fá óþarfa spjöld vegna slæmrar hegðunar eða lélegrar dómgæslu. Ég er heldur ekki að ræða þessi mál vegna úrslita leikjanna hjá mér. Við höfum unnið slatta af leikjum en tapað fleirum, enda skipta úrslit leikjanna minnstu máli í þessu samhengi, aðalatriðið er að drengirnir fái að spila í 11 manna bolta og ekki skemmir það fyrir að fá að spila við "stóru" nöfnin í íslenska boltanum. En, vonbrigði drengjanna minna leyna sér ekki eftir ferðirnar suður.

Hvers vegna er ekki verið að sýna þessum drengjum meiri virðingu? Eru félögin að einblína um of á aðra hluti. Þetta er mjög viðkvæmur aldur og mesta brottfallið á sér stað á þessum aldri. Getur verið að ástæðan fyrir brottfallinu sé að félögin eru ekki að sinna þessum aldri sem skyldi? Er ekki ástæða til að skoða þessi mál betur og hlúa að þessum drengjum sem margir hverjir "gætu" orðið framtíðar landsliðsmenn Íslands. Geta "höfuðstöðvarnar" þ.e.a.s. KSÍ ekki gert eitthvað í málunum svo að umgjörðin hjá 3.flokki karla verði betri í framtíðinni.

Ég kalla þetta vanvirðingu, hvað svo sem öðrum finnst....
Með fótboltakveðju, Róbert Haraldsson þjálfari.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner