þri 25. nóvember 2014 16:02
Elvar Geir Magnússon
Leikmannamál
Aron enn í verkfalli
Aron er 19 ára gamall og vill komast frá Fram sem féll úr Pepsi-deildinni á liðnu tímabili.
Aron er 19 ára gamall og vill komast frá Fram sem féll úr Pepsi-deildinni á liðnu tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr Morgunblaðinu 1997.
Úr Morgunblaðinu 1997.
Mynd: Morgunblaðið
Staða Arons Bjarnasonar, leikmanns Fram, er óbreytt en hann hefur verið í verkfalli og ekkert mætt á æfingar hjá liðinu.

„Ég fór í verkfallið af því þeir höfnuðu tilboði frá ÍBV," sagði Aron í samtali við Vísi í síðustu viku en Framarar hafa hafnað alls þremur tilboðum frá ÍBV.

Fótbolti.net hefur ekkert náð í Aron sjálfan þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir. Sverrir Einarsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, sagði við Fótbolta.net nú áðan að Aron hafi ekkert látið sjá sig á æfingum.

„Við væntum þess að hann fari að mæta á æfingar. Menn geta ekki vænst þess að mæta ekkert og vera síðan bara losaðir. Menn verða að sýna lit og virða samninga. Það er ekki hægt að standa í þessu annars. Við verðum að virða okkar samninga og þeir verða að gera það líka," segir Sverrir.

KR-ingar fóru í verkfall 1997
Verkföll eru sem betur fer afar sjaldgæf í íslenska boltanum en árið 1997 fóru leikmenn KR í verkfall eftir þjálfaraskipti hjá félaginu. Lukas Kostic var þá rekinn og Haraldur Haraldsson ráðinn í hans stað.

Björgólfur Guðmundsson var þá formaður knattspyrnudeildar KR og sagði við Morgunblaðið að leikmennirnir væru samningsbundnir og þeim bæri að mæta í vinnuna.

„Við þurfum ekki álit leikmanna enda kemur þeim í sjálfu sér ekkert við hvað við gerum. Þeir eru í vinnu hjá okkur og þurfa að stunda hana, annars eru þeir að brjóta saminga sem við þá hafa verið gerðir," sagði Björgólfur í viðtali við Morgunblaðið.

Uppfært 16:46:
Aron segist ekki í verkfalli og mætir á æfingu á eftir
Athugasemdir
banner
banner
banner