mið 25. nóvember 2015 23:05
Arnar Geir Halldórsson
Van Gaal: Wolfsburg er besta liðið í riðlinum
Louis van Gaal
Louis van Gaal
Mynd: Getty Images
Louis van Gaal, stjóri Man Utd, var ósáttur að hafa ekki náð að tryggja sér sæti í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Man Utd gerði markalaust jafntefli við PSV á Old Trafford í leiðinlegum leik en Hollendingurinn vill meina að liðið hafi fengið færi til að klára leikinn.

„Við hefðum getað skorað í fyrri hálfleik og líka snemma í þeim síðari. Annars vorum við alls ekki góðir. Við vorum hræddir við að spila boltanum en það má ekki gleyma að við fengum engin færi á okkur."

„Miðjumennirnir féllu of mikið til baka og náðu því ekki að styðja fremstu menn okkar nógu vel," sagði van Gaal.

Wolfsburg er á toppi riðilsins með níu stig, Man Utd hefur átta stig í 2.sæti og PSV er í því þriðja með sjö stig.

Örlög Man Utd í Meistaradeildinni munu því ráðast í lokaumferðinni en þá þarf liðið helst að vinna Wolfsburg í Þýskalandi þar sem PSV fær CSKA Moskvu í heimsókn á sama tíma.

„Það verður mjög erfitt því Wolfsburg er besta liðið í riðlinum en það er mögulegt. Við unnum þá á heimavelli. PSV þarf líka að vinna CSKA og það er ekki mjög auðvelt", sagði Van Gaal.


Athugasemdir
banner
banner