Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
banner
   fim 26. apríl 2018 21:02
Ívan Guðjón Baldursson
Evrópudeildin: Svekkjandi jafntefli fyrir Arsenal
Koscielny sparkaði knettinum í sjálfan sig og gaf Atletico jöfnunarmarkið.
Koscielny sparkaði knettinum í sjálfan sig og gaf Atletico jöfnunarmarkið.
Mynd: Getty Images
Arsenal fékk Atletico Madrid í heimsókn í fyrri undanúrslitaleik liðanna í Evrópudeildinni.

Heimamenn fengu draumabyrjun á Emirates þar sem hægri bakvörðurinn Sime Vrsaljko var rekinn útaf með tvö gul spjöld strax á tíundu mínútu.

Skömmu síðar var Diego Simeone, þjálfari Atletico, sendur upp í stúku og óðu heimamenn í færum.

Jan Oblak varði nokkrum sinnum vel og skutu heimamenn framhjá markinu en inn vildi boltinn ekki og var staðan markalaus í hálfleik.

Arsenal var við stjórn allan tímann og borgaði sóknarþungi heimamanna sig þegar Alexandre Lacazette stökk hæst og skallaði knöttinn inn á 61. mínútu.

Gestirnir gerðu fáar tilraunir til að sækja en Antoine Griezmann náði að jafna á lokakaflanum, þvert gegn gangi leiksins. Það barst langur bolti fram völlinn úr varnarlínu Atletico og virtist Laurent Koscielny vera búinn að vinna kapphlaupið við Griezmann.

Koscielny sparkaði þá knettinum í andlitið á sjálfum sér í tilraun til að hreinsa og náði Griezmann boltanum. Frakkinn knái klobbaði David Ospina og skoraði framhjá Shkodran Mustafi, sem rann er hann reyndi að fara fyrir boltann.

Florian Thauvin og Clinton N'Jie, fyrrverandi leikmenn Newcastle og Tottenham, gerðu mörk Marseille í 2-0 sigri á Salzburg í hinum undanúrslitaleiknum.

Arsenal 1 - 1 Atletico Madrid
1-0 Alexandre Lacazette ('61)
1-1 Antoine Griezmann ('82)
Rautt spjald: Sime Vrasljko, Atletico ('10)

Marseille 2 - 0 Salzburg
1-0 Florian Thauvin ('15)
2-0 Clinton N'Jie ('63)
Athugasemdir
banner
banner
banner