Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 26. maí 2015 15:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í 1. deild: Eina markmiðið að gera betur en í fyrra
Oddur Björnsson er leikmaður 3. umferðarinnar í 1. deildinni.
Oddur Björnsson er leikmaður 3. umferðarinnar í 1. deildinni.
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var klárlega mjög góður sigur. Þetta var toppslagur og við vissum að þetta yrði erfiður leikur," segir Oddur Björnsson leikmaður Þróttar sem skoraði eitt mark í 3-0 sigri Þróttar á HK í 3. umferð og átti stórfínan leik á miðjunni.

Hann er leikmaður 3. umferðarinnar í 1. deild karla að mati Fótbolta.net.

Alltaf sætt að skora
„Við spiluðum við þá í Lengjubikarnum og vissum við hverju mátti búast. Leikplanið gekk fullkomlega upp hjá okkur og í rauninni mætti hrósa öllu liðinu fyrir mjög góðan leik," segir Oddur sem eins og fyrr sagði skoraði eitt mark í leiknum. Hann skoraði þriðja mark Þróttar og þar með gulltryggði sigurinn.

„Það er alltaf sætt að skora. Þetta var fínn leikur hjá mér og ég er sáttur með það. Mér fannst þetta allan tímann nokkuð þægilegur sigur. Mér leið vel inn á vellinum og mér fannst þeir ekki skapa mörg hættuleg færi, kannski 2-3 góð færi sem voru eftir einstaklingsmistök hjá okkur."

„Annars vorum við að verjast þeim vel og síðan erum við alltaf hættulegir fram á við, með Dion, Viktor og Alexander Veigar í fremstu víglínu."

Þróttarar eru með sterka liðsheild sem hefur lengi spilað sama. Þeir styrktu sig síðan með sterkum leikmönnum í vetur.

„Frá því í fyrra höfum við ekki misst neinn leikmann og bætt við okkur. Allir leikmennirnir sem hafa komið, hafa staðið sig frábærlega."

Tók sér frí útaf skóla og þreytu
Einn af þeim leikmönnum sem komu til Þróttar er Omar Koroma sem lék sinn fyrsta leik á laugardaginn. Hann er nýkominn til landsins og lofar góðu fyrir Þróttara.

„Ég hef bara verið með Omari á þessum 2-3 æfingum sem hann hefur verið með, svo í leiknum. Hann lítur nokkuð vel út. Hann getur spilað á kantinum og frammi. Við sjáum á næstu dögum hvernig leikmaður hann er."

Oddur Björnsson lék aðeins 12 leiki með Þrótti í 1. deildinni í fyrra vegna anna í skóla. Hann er þó kominn á fullt núna.

„Ég æfði vel í vetur og mætti vel á æfingar. Fríið sem ég tók í fyrra var bæði útaf skóla og útaf smá þreytu. Það var mjög gott að taka smá frí og prófa eitthvað annað en fótbolta í smástund. Þegar sumarið kom, þá var það of freystandi að koma aftur til baka." segir Oddur sem sér ekki eftir því að hafa tekið sér smá frí frá boltanum.

„Ég mæti á allar æfingar sem ég get. Ég fæ stundum frí á æfingum ef það er mikið að gera í skólanum."

Mörg lið sem koma til greina
Þróttarar eru á toppi 1. deildar með fullt hús stiga.

„Þetta er eins góð byrjun og við gátum óskað okkur. Við áttum alveg eins von á því að við gætum byrjað svona vel. Það var í rauninni markmiðið."

„Við lentum í 3. sæti í deildinni í fyrra og vorum svekktir að gera ekki betur í vissum leikjum. Það er eina markmiðið núna, að gera betur en í fyrra," segir Oddur sem býst við harðri baráttu um sæti í Pepsi-deildinni.

„Það eru mjög mörg lið sem koma til greina. Það er erfitt að segja til um það þegar svona lítið er búið af mótinu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner