Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   sun 26. júní 2016 17:15
Fótbolti.net
Ósætti á Orkumóti - Fékk ekki að spila landsleik því hún er stelpa
Orkumótið fer fram í Vestmannaeyjum á ári hverju
Orkumótið fer fram í Vestmannaeyjum á ári hverju
Mynd: Sporthero
Orkumótið í Vestmannaeyjum fór fram um helgina en mótið er stórviðburður í knattspyrnu yngri flokka á ári hverju.

Mótið er fyrir 6.flokk karla og fastur liður í dagskrá mótsins er landsleikur þar sem mætast landslið og pressulið á Hásteinsvelli og er umgjörðin hin glæsilegasta en öll þátttökulið velja fulltrúa úr sínum röðum til að taka þátt í leiknum.

Pétur Már Harðarson, þjálfari 6.flokks Gróttu, segir farir sínar ekki sléttar frá Orkumótinu en honum var gert að velja annan leikmann í landsleikinn þar sem hann hafði upphaflega valið stelpu sem leikur með A-liði Gróttu. Samkvæmt reglum KSÍ er stelpum heimilt að spila með strákum í yngri flokkum.

„Leikmaðurinn sem ég valdi skaraði fram úr í A-liðinu okkar í fyrstu leikjum mótsins og hefur þar að auki sinnt æfingum afskaplega vel í allan vetur og í vor. Fyrirmyndar iðkandi í alla staði. Seinni partinn á föstudaginn fékk ég svo símtal frá mótsstjórn þar sem mér val tilkynnt að ég þyrfti að breyta og tilnefna annan leikmann. Af hverju? Af því að ég valdi stelpu sem fulltrúa Gróttu í landsleikinn," er meðal þess sem segir í Facebook færslu Péturs um málið.

Ákvörðun mótsstjórnar varð ekki haggað og fór svo að Pétur valdi annan leikmann til að spila leikinn.

„Útskýringarnar sem ég fékk frá mótsstjórn voru þær að Orkumótið væri strákamót og því ættu strákar að spila landsleikinn. Eftir að hafa maldað í móinn var mér einfaldlega sagt að Grótta þyrfti að gera betur og tefla fram liðum í 6. flokki kvenna. Það gerum við svo sannarlega og nú um helgina spila þrjú lið frá 6. flokki kvenna í Gróttu á Landsbankamóti Tindastóls á Sauðárkróki. Málið er að við hjá knattspyrnudeild Gróttu erum óhrædd við að hugsa út fyrir kassann og hjá okkur æfa stelpur með strákum ef við teljum það henta þeim betur en að æfa með "sínum flokki", segir Pétur.
Athugasemdir
banner
banner