Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   þri 26. júlí 2016 15:27
Elvar Geir Magnússon
Pepsi-deildin
Hólmbert: Þetta hefur tekið helvíti mikið á mig
Hólmbert Aron með knöttinn.
Hólmbert Aron með knöttinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hólmbert er ánægður hjá KR.
Hólmbert er ánægður hjá KR.
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Hlutirnir hafa alls ekki verið að ganga upp hjá Hólmberti Aroni Friðjónssyni, sóknarmanni KR, í sumar en honum hefur enn ekki tekist að skora í Pepsi-deildinni.

Sögusagnir hafa verið um að hann gæti verið á förum frá KR-ingum og sagt að Stjarnan og Valur séu meðal félaga sem hafa áhuga.

Hólmbert hefur sjálfur heyrt þessar sögur eins og aðrir en ekkert meira en það.

„Eins og er þá eru þetta bara kjaftasögur sem ég heyri eins og þið. Ég hef ekki heyrt neitt meira en þið og enginn talað við mig persónulega," segir Hólmbert.

Hefur hann hug á því að fara annað?

„Auðvitað vill maður spila meira en það hefur gengið illa, bæði hjá mér og liðinu. Vonandi erum við á uppleið núna. Maður vill auðvitað spila sem flestar mínútur og fá traust sem leikmaður í stað þess að vera í vafa um sína stöðu og vita ekki hvort maður byrji eða ekki. En maður verður bara að æfa meira og reyna að koma sér í gírinn."

Hólmbert fer ekki leynt með að sumarið hafi verið mjög erfitt fyrir sig en bölvanlega hefur gengið fyrir framan mark andstæðingana.

„Ég get ekki neitað því að þetta hefur tekið helvíti mikið á mig. Það er eins og þetta hafi bara horfið yfir nótt. En það er ekki þannig og maður verður að hafa trú á þessu áfram. Maður verður að núllstilla sig og koma sér í gírinn," segir þessi hæfileikaríki leikmaður.

Helvíti fúll í klefanum
Hólmbert kom inn sem varamaður þegar KR tapaði fyrir Víkingi í gær og fékk mjög góð færi til að skora en tókst ekki.

„Ég var helvíti fúll þegar ég kom inn í klefa í gær. Það er eins og þetta ætli bara ekki að ganga upp fyrir mig og það kom upp smá vonleysi. Það er þessi millimeter sem vantar en þetta fer vonandi að koma."

„Ég er ánægður í KR og hlakka til að takast á við seinni hluta tímabilsins með þeim. Þetta hefur verið mjög erfitt en maður verður bara að leggja harðar að sér þegar þetta gengur svona. Margir fótboltamenn þurfa að ganga í gegnum svona tíma en maður fær vonandi enn meira sjálfstraust fyrir vikið þegar maður kemst upp úr þessu og nær að snúa þessu við."

KR-ingar eru í tíunda sæti Pepsi-deildarinnar en liðið gekk í gegnum þjálfaraskipti fyrr í sumar þegar Willum Þór Þórsson tók við eftir að Bjarni Guðjónsson var rekinn.
Athugasemdir
banner