þri 26. júlí 2016 07:30
Ívan Guðjón Baldursson
Napoli vill Icardi - Bjóða eiginkonunni hlutverk í kvikmynd
De Laurentiis er reiðubúinn að gefa eiginkonu Icardi hlutverk í kvikmynd til að fá sóknarmanninn í sínar raðir.
De Laurentiis er reiðubúinn að gefa eiginkonu Icardi hlutverk í kvikmynd til að fá sóknarmanninn í sínar raðir.
Mynd: Getty Images
Líkur eru á því að Gonzalo Higuain sé á förum frá Napoli til Juventus fyrir himinháa fjárhæð og því þarf Napoli að versla sér sóknarmann fyrir upphaf tímabilsins.

Félagið hefur mikinn áhuga á Mauro Icardi, sóknarmanni Inter, og vill Aurelio De Laurentiis, forseti Napoli, ólmur fá hann til félagsins.

Frá þessu greinir Gianluca Di Marzio, einn fremsti fréttamaður Ítalíu þegar það kemur að knattspyrnufregnum.

Icardi er 23 ára sóknarmaður sem hefur sannað markaskorunarhæfileika sína í ítölsku deildinni með því að gera 47 mörk í 87 leikjum hjá Inter.

Di Marzio segir að málsaðilar muni funda síðar í dag og heldur því fram að Napoli sé reiðubúið til að bjóða 45 milljónir evra fyrir Icardi, en telur ólíklegt að Inter samþykki tilboðið.

Því ætlar Napoli að gera sitt besta til að vinna hug sóknarmannsins og segir Di Marzio að eiginkonu Icardi hafi verið lofað hlutverk í kvikmynd gangi félagsskiptin upp, því De Laurentiis er kvikmyndaframleiðandi auk þess að vera eigandi Napoli.

Eiginkona Icardi heitir Wanda Nara og var mikið í fréttunum fyrir þremur árum þegar hún hætti með sóknarmanninum Maxi Lopez til að byrja með Icardi, sem hafði verið liðsfélagi Maxi Lopez hjá Sampdoria skömmu áður.
Athugasemdir
banner
banner
banner