Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 26. júlí 2016 16:45
Elvar Geir Magnússon
Heimild: Valur.is 
Þorgrími finnst of mikil dómharka í stuðningsfólki Vals
Þorgrímur Þráinsson, formaður Vals.
Þorgrímur Þráinsson, formaður Vals.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Undanfarið hefur borið á dómhörku Valsmanna úr stúkunni, dómhörku í garð leikmanna, jafnvel niðrandi ummæli um einstaklinga sem eru að leggja sig fram, sinna ástríðunni, en gera mistök - eða ekki mistök. Slíkt er Valsmönnum ekki sæmandi."

Þetta er brot úr pistli sem Þorgrímur Þráinsson formaður Vals skrifar á heimasíðu félagsins.

Pistilinn má sjá í heild hér að neðan:



Aðgát skal höfð...
Íslandsmótið í knattspyrnu er hálfnað. Meistaraflokkur kvenna hefur alla burði til að verða Íslandsmeistari. Meistaraflokkur karla hefur alla burði til að verða bikarmeistari og berjast um efstu sætin í Pepsideildinni, þótt gengið hafi verið brösótt fram til þessa. Við sem erum Valsarar eigum að standa saman í gegnum súrt og sætt. Það eru allir að gera sitt besta, innan vallar sem utan, bæði í meistaraflokkum og yngri flokkunum. Svo ekki sé talað um allar stjórnir deilda og sjálfboðaliða sem verja sínum frítíma í að efla hag félagsins, styðja við bakið á iðkendum.

Þjálfurum, sem eru ráðnir til félagsins, er treyst til að velja liðið hverju sinni, lesa leikinn og gera breytingar. Þjálfararnir eru með leikmönnum daglega, jafnvel marga klukkutíma á dag. Við sem sitjum á pöllunum og styðjum félagið höfum engar forsendur til að meta hver eigi skilið að vera í byrjunarliðinu, hvaða leikkerfi eru notuð eða hvað þjálfarnarnir eru að hugsa. Við getum haft skoðanir á hverjum leik fyrir sig og leikmönnum, látið þær í ljós án þess að dæma aðra og velt vöngum yfir því hvað hafi verið vel gert og hvað megi betur fara. Sjálfur hef ég sterkar skoðanir og án efa misst eitthvað út úr mér sem ég hefði betur látið ógert.

Undanfarið hefur borið á dómhörku Valsmanna úr stúkunni, dómhörku í garð leikmanna, jafnvel niðrandi ummæli um einstaklinga sem eru að leggja sig fram, sinna ástríðunni, en gera mistök -- eða ekki mistök. Slíkt er Valsmönnum ekki sæmandi. Sumir vilja gefa ungum leikmönnum fleiri tækifæri, aðrir fetta fingur út í nýja leikmenn og eflaust vakna þessar vangaveltur af því viðkomandi er með hagsmuni og velferð Vals að leiðarljósi. Við lærum mest af mistökum okkar, hvort sem við erum innan vallar eða utan og „sá sem gerir aldrei mistök hefur aldrei lifað til fulls" -- sagði vitur maður. Þess vegna eigum við að gæta orða okkar og hafa máltækið í heiðri: „Aðgát skal höfð í nærveru sálar."

Við sem fullorðin erum beint eða óbeint fyrirmyndir þeirra sem yngri eru. Iðkendur yngra flokka horfa á leiki, sem og foreldrar, systkini, jafnvel börn leikmanna. Ættum við ekki daglega að minna okkur á einkunnarorð Vals: „Látið aldrei kappið bera fegurðina ofurliði."

Ég hvet alla Valsmenn nær og fjær, til að standa saman, hafa heiðarleika að leiðarljósi, innan vallar sem utan og leggja sitt af mörkum til þess að Valur verði ávallt í fremstu röð. Tækifærin blasa við okkur og Hlíðarendi á að vera griðarstaður iðkenda, foreldra, áhorfenda og þeirra sem vilja lifa og hrærast í heilbrigðu og fallegu umhverfi þar sem hver og einn hefur tækifæri til blómstra -- á sinn hátt.

Þorgrímur Þráinsson formaður Vals
Athugasemdir
banner
banner