mið 26. júlí 2017 22:13
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Viðtal
Heimir Guðjóns: Væri gaman að fá 2-3000 manns í Krikann
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
„Við vissum að við værum að fara að spila á móti mjög góðu liði," sagði Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, þegar Fótbolti.net heyrði í honum eftir 1-0 tap gegn slóvensku meisturunum í Maribor í kvöld.

Um fyrri leik liðanna í 3. umferð í forkeppni Meistaradeildarinnar var að ræða, en leikurinn í kvöld var í Slóveníu.

Úrslitin eru því ekki alslæm fyrir FH-inga.

„Við náðum að verjast vel í þessum leik og þeir voru ekki að skapa sér mörg opin færi. Við missum einbeitinguna einu sinni og þeir fengu mark úr því," sagði Heimir.

„Auðvitað erum við alltaf svekktir að tapa, en þetta eru tveir leikir og 1-0 er ekki óvinnandi."

Heimir var búinn að skoða Maribor-liðið vel fyrir leikinn í kvöld. Hann var spurður að því hvort slóvensku meistararnir hefðu spilað nákvæmlega eins og hann hafði búist.

„Það er náttúrulega aldrei hægt að gera ráð fyrir öllu í fótbolta, en mér fannst uppleggið hjá okkur ganga ágætlega. Auðvitað hefði mátt gera betur í einhverjum stöðum."

„Eins og ég segi þá er þetta virkilega gott lið og með marga góða einstaklinga innan sinna raða. Við erum alla vega inn í þessu ennþá og það er jákvætt," sagði Heimir.

Heimir er vongóður fyrir seinni leikinn. Hann vill þó sjá meira frá sínum mönnum, sérstaklega í sóknarleiknum.

„Við þurfum kannski að halda boltanum betur og skapa okkur betri færi. Það voru ákveðnir möguleikar fyrir okkur í kvöld, en við náðum ekki að opna þá eins og við vildum. Það er það sem við þurfum að gera betur í seinni leiknum, að halda boltanum innan liðsins og ná að opna þá betur."

Það er þétt spilað hjá FH-ingum núna. Þeir eiga undanúrslitaleik í Borgunarbikarnum gegn Leikni R. á laugardaginn og eftir nákvæmlega viku er seinni leikurinn gegn Maribor. Hvernig er standið á leikmönnum FH fyrir þessa leiki?

„Það er fínt. Það sluppu allir vel frá þessum leik. Það er erfiður leikur gegn Leikni í bikarnum á laugardaginn og við förum að undirbúa hann strax í kvöld."

Heimir vonast til þess að það verði vel mætt á Kaplakrikavöll fyrir seinni leikinn eftir viku.

„Möguleikarnir eru til staðar og það væri gaman að fá 2-3000 manns í Krikann. Það væri gaman að fá alvöru stemningu."

Sjá einnig:
Heimir Guðjóns: Ekki hægt að spila leik og hlaupa bara í 90 mínútur
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner