Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 27. janúar 2015 17:30
Magnús Már Einarsson
Helgi Kolviðs: Ekkert að spá í að koma heim
Helgi Kolviðsson.
Helgi Kolviðsson.
Mynd: Getty Images
Helgi og Gunnlaugur Jónsson þegar sá síðarnefndi kíkti í heimsókn til Austria Lustenau.
Helgi og Gunnlaugur Jónsson þegar sá síðarnefndi kíkti í heimsókn til Austria Lustenau.
Mynd: Twitter
,,Þetta er næsta skref fyrir mig," sagði Helgi Kolviðsson við Fótbolta.net í vikunni en hann tók í lok síðasta árs við þjálfun Wiener Neustadt í austurrísku úrvalsdeildinni.

,,Ég kláraði UEFA Pro þjálfaragráðuna í sumar og síðan kom þetta upp á. Ég hafði verið í viðræðum við lið í neðri deildum í Þýskalandi og Sviss en þetta er úrvalsdeild og það er næsta skref fyrir mig."

Helgi hafði áður þjálfað SC Pfullendorf í Þýskalandi og Austria Lustenau í næstefstu deild í Austurríki. Hvernig er styrkleikinn á úrvalsdeildinni í Austurríki samanborið við Þýskaland?

,,Þetta er svipað og næstefsta deild í Þýskalandi. Toppliðin eins og Salzburg, Rapid Vín, Sturm Graz gætu líklega haldið sér í neðri hlutanum í Bundesligunni. Það er ekkert svo mikill munur. Við æfum svipað og jafn mikið og liðin í Þýskalandi. Þar er bara meiri peningur og aðeins meiri gæði."

Helgi hefur ekki ennþá leitað til Íslands að leikmönnum en hann segir að það hafi ekki hentað hingað til.

,,Á síðasta ári mátti ég bara vera með þrjá útlendinga á leikskýrslu hjá mér. Ég kom síðan inn í þetta lið núna og er ekki með pláss í hópnum. Við erum með 26 atvinnumenn í hópnum fyrir utan varaliðið og það er ekkert pláss eins og er."

Helgi hefur þó fengið íslenska leikmenn á æfingar hjá sér í gegnum tíðina. ,,Ég hef gert það 3-4 sinnum þegar ég hef verið úti. Það er ekkert mál að fá leikmenn í heimsókn til að leyfa þeim að kynnast aðstæðum og því að vera atvinnumaður."

Frábær árangur íslenska landsliðsins hefur vakið mikla athygli í Austurríki eins og víðar. Helgi spilaði 29 landsleiki á sínum tíma og erlendir fjölmiðlar hafa spurt hann út í uppganginn á Íslandi.

,,Ég er búinn að fara í mörg viðtöl í sjónvarpi og blöðum hér þar sem er verið að spyrja út í það af hverju íslenska landsliðið er svona sterkt. Yngri flokka starfið byrjaði ekkert í gær heldur fyrir 10-12 árum og þetta er áætlun sem er að ganga upp núna," sagði Helgi en hann reiknar ekki með að þjálfa á Íslandi í framtíðinni.

,,Maður er búinn að vera hérna úti í tæp tuttugu ár. Ég spilaði fyrst bæði í Austurríki og Þýskalandi og maður er ekkert að spá í að koma heim í dag þó að maður eigi aldrei að segja aldrei," sagði Helgi léttur í bragði.
Athugasemdir
banner
banner