Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   mán 27. apríl 2015 12:45
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Nýliðinn - „Kom hingað til að vinna titla"
Brynjar Gauti er nýliði hjá Stjörnunni.
Brynjar Gauti er nýliði hjá Stjörnunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótbolti.net hitar upp fyrir Pepsi-deildina með því að kynna liðin í þeirri röð sem þeim er spáð. Meðfram því kynnum við einn nýliða í hverju liði, leikmann sem gekk í raðir þess fyrir tímabilið. Varnarmaðurinn Brynjar Gauti Guðjónsson yfirgaf ÍBV og fór í Stjörnuna.

Nafn: Brynjar Gauti Guðjónsson
Aldur: 23 ára
Staða: Miðvörður
Fyrri félög: Víkingur Ó og ÍBV

Hvaða væntingar hefur þú til sumarsins hjá liðinu: Ekkert annað en titilbarátta kemur til greina.

Hvernig finnst þér búningur liðsins: Geggjaður, spilaði í hvítu í Eyjum og bláu í Ólafsvík, þannig mér líður vel í Stjörnubúningnum hvort sem það er heima eða að heiman!

Í hvernig takkaskóm spilar þú: Búinn að vera í Umbro í vetur en ætli það verði ekki Nike í sumar.

Hvert er þitt helsta afrek sem knattspyrnumaður: Ætli það sé ekki sumarið 2010 með Ólafsvík, stigamet í 12 liða deild og 4 liða úrslit í bikar. Eða þá að komast í umspil um að komast á EM með u21 liðinu og vera nálægt því að leggja gríðarsterkt danskt lið að velli.

Hefð á leikdegi: Ekkert sérstakt svo sem, reyni bara að taka því rólega yfir daginn og borða svo eitthvað gott svona 3 tímum fyrir leik.

Afhverju valdir þú að fara í Stjörnuna: Mest spennandi liðið á Íslandi þessa dagana, flott umgjörð, skemmtilegur hópur, öflugt þjálfarateymi og landsins bestu stuðningsmenn.

Hvernig hafa fyrstu mánuðir hjá nýju liði verið: Þeir hafa verið mjög góðir, þrátt fyrir að það hafi oft verið ansi kalt á Samsung vellinum í vetur.

Ef þú fengir að velja einn leikmann úr öðru íslensku liði: Ég myndi taka minn fyrrum félaga úr Ólafsvík, Þorstein Má, vanmetin leikmaður sem á skilið að spila miklu meira en hann hefur gert.

Hverju værir þú til í að breyta hjá félaginu: Það sárvantar eitt stykki knattspyrnuhús í Garðabæinn.

Skilaboð til stuðningsmanna: Haldið bara áfram að vera geggjaðir og þá verðum við geggjaðir!

Varnarmaðurinn, Brynjar Gauti Guðjónsson var orðaður við nokkur lið í vetur áður en hann skrifaði undir samning við Íslandsmeistara Stjörnunnar. Hann segir það ekkert leyndarmál hver ástæðan var fyrir því að hann valdi Stjörnuna.

„Ég fór í Stjörnuna til að vinna titla. Stefnan er sett á það í sumar," segir Brynjar Gauti sem hefur leikið með ÍBV undanfarin ár í Pepsi-deildinni. Hann segir samkeppni um stöður í liði Stjörnunnar töluvert meiri en í Eyjum.

„Í Eyjum höfum við verið með 12-13 leikmenn sem hafa verið að berjast um sæti í liðinu. Í Stjörnunni er töluvert stærri hópur og margir mjög sterkir ungir strákar að koma upp, sem gera tilkall til að spila."

Sumarið hjá Stjörnunni í fyrra var mikið ævintýri. Liðið fór taplaust í gegnum Íslandsmótið og fór langt í Evrópukeppninni. Brynjar segist hafa heyrt margar sögur af sumrinu í fyrra frá nýju liðsfélögunum.

„Maður hefur fengið að heyra um allt ævintýrið í fyrra, hvernig það var að spila á San Siro og allt það. Þeir geta ekki lifað á því endalaust og þeir verða að ná sér niður á jörðina," segir Brynjar sem tekur það fram að strákarnir í liðinu séu komnir lang leiðina niður á jörðina.

Brynjar býst við spennandi sumri og það verður krefjandi verkefni fyrir Stjörnuna að mæta til leiks sem ríkjandi Íslandsmeistarar.

„Stjarnan er liðið sem allir vilja vinna í sumar. Þetta verður tvöfalt erfiðara í sumar heldur en í fyrra. Það er best að pæla eins lítið í þessu og hægt er. Ég hef fulla trú á því að við gerum það og verðum klárir í alla leiki," segir Brynjar Gauti að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner