lau 27. maí 2017 18:27
Ívan Guðjón Baldursson
England: Arsenal bikarmeistari í þrettánda sinn
Mynd: Getty Images
Arsenal 2 - 1 Chelsea
1-0 Alexis Sanchez ('4)
1-1 Diego Costa ('76)
2-1 Aaron Ramsey ('79)
Rautt spjald: Victor Moses, Chelsea ('68)

Arsenal var rétt í þessu að tryggja sér enn einn FA bikarmeistaratitilinn eftir góðan 2-1 sigur gegn erkifjendunum í Chelsea.

Alexis Sanchez byrjaði á því að skora strax á fjórðu mínútu eftir að Englandsmeisturunum tókst ekki að hreinsa boltann almennilega úr vítateignum.

Bæði lið fengu góð færi í skemmtilegum og opnum leik en þeir rauðklæddu voru 1-0 yfir í hálfleik.

Í síðari hálfleik fékk Victor Moses gult spjald fyrir brot og stundarfjórðungi síðar fékk hann annað gult spjald fyrir leikaraskap.

Tíu leikmenn Chelsea jöfnuðu skömmu síðar þegar Diego Costa fékk of mikinn tíma til að athafna sig í vítateignum eftir góða sendingu frá Willian. Skotið frá Costa var ekki sérlega gott en David Ospina réði ekki við það.

Tíu leikmenn Chelsea voru gríðarlega sáttir með jöfnunarmarkið en sú hamingja var skammlíf því Aaron Ramsey skallaði knöttinn í netið skömmu síðar eftir frábæra fyrirgjöf frá Olivier Giroud.

Bæði lið fengu færi til að bæta við mörkum í frábærum úrslitaleik en meira var ekki skorað og verðskuldar Arsenal sinn þriðja bikarmeistaratitil á fjórum árum.

Þetta er þrettándi FA titill Arsenal, sem gerir félagið að sigursælasta félagi bikarkeppninnar frá upphafi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner