Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   lau 27. maí 2017 17:38
Magnús Már Einarsson
Logi Ólafs: Gjörbreytir öllu að hafa náð að jafna
Logi Ólafsson.
Logi Ólafsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
„Úr því sem komið var á var rosalega gott að ná stigi," sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings R., eftir 2-2 jafntefli gegn KA í Pepsi-deildinni í dag.

Smelltu hér til að lesa um leikinn

Alex Freyr Hilmarsson jafnaði á lokasekúndunum og tryggði Víkingi stig en liðið hafði lent 2-0 undir í leiknum.

„Liðinu hefur ekki vegnað vel og það er svolítið högg sem við fáum í stöðunni 0-0 þegar við gefum þeim mark. Það var eins og liðið næði ekki að þola það og annað mark fylgdi í kjölfarið. Það er ánægjulegast að hafa náð að jafna leikinn. Það gjörbreytir öllu fyrir okkur," sagði Logi sem var ekkert alltof sáttur með spilamennsku sinna manna þrátt fyrir jafntefli.

„Ég get ekki hrósað miklu í því sambandi. Að vísu voru kaflar þarna þar sem við vorum að gera virkilega vel. Við náðum nokkrum sinnum að spila okkur í gegnum pressu KA og fengum besta færi fyrri hálfleiks. Það hefði breytt miklu að nýta það færi."

„Það voru kaflar í þessu en á kafla í fyrri og seinni hálfleik vorum við alls ekki góðir. Við komum upp í lokin og það að jafna á síðustu metrunum er eitthvað sem liðið getur tekið með sér."


Logi er þaulreyndur þjálfari en hann hefur ekkert þjálfað síðan hann var með Stjörnuna árið 2013. Hann segir gaman að mæta aftur á hliðarlínuna.

„Það er mjög gaman. Ég þurfti ekkert að grafa lengi eftir hugarfarinu sem þarf að hafa. Það eru tvær æfingar búnar og einn leikur. Ég vona bara að við verðum betri með hverjum leiknum sem líður," sagði Logi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner