mán 27. júní 2016 12:25
Þorsteinn Haukur Harðarson
Blaðamaður Insideworldfootball: Ísland má ekki vera of varnarsinnað
Icelandair
Samindra Kunti, blaðamaður Insideworldfootball
Samindra Kunti, blaðamaður Insideworldfootball
Mynd: Einkasafn
Spennan fyrir leik Íslands og Englands í 16-liða úrslitum EM í kvöld er orðin mikil og fjölmiðlamenn víða um heim hafa sýnt leiknum mikinn áhuga. Við ræddum við Samindra Kunti, blaðamann hjá Insideworldfootball, um leikinn í kvöld en hann hefur fylgst með íslenska liðinu í keppninni.

„Eftir frægan sigur gegn Austurríki þar sem Gummi Ben öskraði að honum hafi aldrei liðið betur mun íslenska liðið koma með gott sjálfstraust í leikinn gegn Englandi. Leikmenn og starfslið íslenska liðsins vita samt hvað er undir og þeir nálgast leikinn af fagmennsku," segir blaðamaðurinn Samindra Kunti hjá Insideworldfootball

„Þrátt fyrir að enska liðið sé sterkara á blaði átti það í vandræðum gegn Slóvakíu sem náðu að halda í stigið gegn Englandi. Íslenska liðið gæti reynt að fylgja fordæmi Slóvaka en mega þó ekki liggja of aftarlega. Liðið reyndi það gegn Ungverjum og það kostaði tvö stig í lokin. Ég set England sem líklegra liðið í kvöld, 55% - 45%."

Þá ræddi hann um gengi enska liðsins á stórmótum. 

„Þó svo að England valdi alltaf vonbrigðum komast þeir yfirleitt í átta liða úrslitin þar sem þeir tapa yfirleitt á hádramatískan máta. Roy Hodgson er með mikið af hæfileikaríkum leikmönnum en skiptingarnar fyrir leikinn gegn Slóvakíu komu í bakið á honum."

En hvað þarf íslenska liðið að gera til að vinna leikinn? 

„England spilar sérstaklega vel fyrstu 45 mínútur leiksins svo þið þurfið að undirbúa ykkur undir þunga sókn í fyrri hálfleik. Það er mikilvægt að halda markinu hreinu þann tíma. Ég tel líka að liðið þurfi að hafa sérstakar gætur á Eric Dier, en hann er mjög góður í að dreifa boltanum. Ísland má samt ekki vera of varnarsinnað, það býður hættunni heim."

Hann sá viðureign Íslands og Ungverjalands í Marseille. „Leikurinn var ekkert sérstaklega góður en það voru samt nokkrir góðir hlutir í leik íslenska liðsins. Liðið var samt of varnarsinnað og lélegt þegar það var með boltann og svona hlutir geta reynst dýrkeyptir gegn Englandi. Sá leikmaður í íslenska liðinu sem heillaði mig mest var Birkir Bjarnason en vinnuframlag hans er gríðarlega mikið."

Að lokum var hann beðinn um að spá fyrir um úrslit leiksins.
„Ég held að þetta fari 2-1 fyrir England, eftir framlengingu."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner