mán 27. júní 2016 22:50
Elvar Geir Magnússon
Nice
Theodór Elmar: Þjóðin gefur okkur vængi
Icelandair
Theodór Elmar hefur reynst íslenska liðinu gríðarlega mikilvægur.
Theodór Elmar hefur reynst íslenska liðinu gríðarlega mikilvægur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta var bara yndislegt," sagði Theodór Elmar Bjarnason, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir sigurinn sögulega í Nice í kvöld. Elmar kom inn sem varamaður seint í leiknum.

„Skilaboð mín voru bara að hlaupa og berjast í þeim og reyna að halda boltanum þegar ég fékk hann. Ég átti að drepa tímann og er ágætlega sáttur við mína innkomu. Það gekk ágætlega þó ég hafi átt að fá nokkrar aukaspyrnur þarna sem ég fékk ekki."

Kom það honum á óvart hve lítið enska liðið náði að opna okkar lið?

„Ég held að þeir hafi verið að reyna sitt besta en ég hef aldrei séð aðra eins varnarlínu. Sérstaklega hjá Ragga. Þetta var gjörsamlega heimsklassa frammistaða hjá honum og ef það eru ekki félög sem reyna að kaupa hann núna eru það stór mistök," segir Elmar,

Hvernig var stemningin í klefanum eftir leik?

„Hún var ótrúleg, menn voru syngjandi og dansandi. Leikmenn voru að hringja í fjölskyldumeðlimi sem voru í tárum. Óendanlega ljúf tilfinning. Við viljum ekki að þetta stoppi. Þetta er fáránlegt."

„Mér fannst eins og enska liðið væri með sína þjóð á bakinu á meðan þjóðin okkar bar okkur áfram í þessu. Stór munur er þar á. Við finnum það hvernig þjóðin gefur okkur vængi. Á endanum var þetta verðskuldað," segir Elmar en framundan er leikur gegn gestgjöfum Frakklands á leikvanginum þar sem við unnum Austurríki. „Við erum góðir á Stade de France."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner