Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 27. júní 2017 11:18
Magnús Már Einarsson
Portúgali í viðræður um að taka við Fram
Framarar gætu fengið þjálfara frá Portúgal.
Framarar gætu fengið þjálfara frá Portúgal.
Mynd: Fótbolti.net - Ingunn Hallgrímsdóttir
Portúgalski þjálfarinn Pedro Hipólito kemur til Íslands í kvöld til að fara í viðræður við Fram. Ásmundur Arnarsson var rekinn frá Fram í siðustu viku en aðstoðarþjálfarinn Ólafur Brynjólfsson stýrir liðinu nú tímabundið.

Guðmundur Benediktsson greindi frá því á Twitter í dag að Fram væri búið að ráða Pedro en Hermann segir það ekki rétt.

„Það er ekki búið að ráða þjálfara. Þessi er einn af þeim sem kemur til greina," sagði Hermann Guðmundsson, formaður knattspyrnudeildar Fram, í samtali við Fótbolta.net í dag.

„Við höfum aðeins kannað áhuga hjá fleirum og þá hafa þjálfara boðið fram krafta sína af fyrra bragði. Við erum að fara yfir þetta og skoða stöðuna."

Pedro fer í viðræður við Fram á morgun. „Hann lendir í kvöld og við fundum með honum á morgun. Mér skilst að hann ætli að horfa á leik liðsins gegn Selfossi á föstudaginn," sagði Hermann.

Á þarsíðasta tímabili stýrði hinn 38 ára gamli Pedro liði Atletico CP í B-deildinni í heimalandi sínu. Hann lék 52 með unglingalandsliðum Portúgal á sínum tíma.

„Hann er með UEFA pro réttindi og er með mjög góð meðmæli frá mörgum sem hafa unnið með honum. Það er ástæðan fyrir því að við samþykktum að hitta hann og ræða við hann um hans hugmyndir," sagði Hermann.
Athugasemdir
banner