Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mið 27. júlí 2016 07:00
Elvar Geir Magnússon
Bestur í 2. deild: Allir í Mjóddinni þurfa að herða sig aðeins
Leikmaður 12. umferðar: Kristján Ómar Björnsson - ÍR
Kristján Ómar átti flottan leik gegn Gróttu.
Kristján Ómar átti flottan leik gegn Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Kristján kom með mikla reynslu í Breiðholtið.
Kristján kom með mikla reynslu í Breiðholtið.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
Í hörkunni.
Í hörkunni.
Mynd: Fótbolti.net: Eyjólfur Garðarsson
ÍR-ingar eru á miklu skriði í 2. deildinni og eiga leikmann umferðarinnar í þriðja sinn í röð. Breiðholtsliðið hefur verið að leggja helstu keppinauta sína í toppbaráttunni og vann síðasta fimmtudag 2-0 útisigur á Gróttu.

„Leikurinn var keimlíkur leiknum gegn Aftureldingu þar sem við spiluðum mjög þéttan varnarleik, gáfum fá færi á okkur og erum svo með leikmenn framarlega á vellinum sem eru stórhættulegir og alltaf líklegir til að skora. Það er fín blanda. Grótta spilaði virkilega vel og hélt boltanum betur en við en í raun var það leikmyndin sem hentaði okkur," segir reynsluboltinn Kristján Ómar Björnsson sem er leikmaður 12. umferðar.

„ÍR, Afturelding og Grótta eru neðstu þrjú liðin í deildakeppni af liðum á höfuðborgarsvæðinu með yngri flokka starf til að byggja á og alvöru aðstöðu. Ekkert af þessum liðum á í raun að vera í C-deild. Að lágmarki eitt af þessum liðum þarf að bíta í það súra epli að sitja eftir á þessum botni og ÍR ætlar sér ekki að vera það lið"

Kristján Ómar er 36 ára en hann lék í fjölmörg ár með Haukum. Í fyrra var hann hjá Gróttu en gekk í raðir ÍR-inga fyrir yfirstandandi tímabil.

„Mér líður virkilega vel hjá ÍR. Það eru algjörir toppdrengir þarna og þjálfararnir eru góðir í því að leyfa leikmönnum að finna sjálfir sitt hlutverk innan liðsins. Það hefur hingað til reynst mjög farsæl ákvörðun fyrir mig að hafa farið í ÍR í vor og vil ég þakka Sindra Snæ Magnússyni fyrir að hafa vísað mér í þá átt. Þó er lykilmaðurinn í því að gera Mjóddina að þessu jákvæða umhverfi sem það er að sjálfsögðu Eyjó liðsstjóri."

Hvað einkennir lið ÍR?

„Liðssamstaða er fyrsta og helsta orðið sem kemur upp í hugann. Ég hef sjaldan verið í meistaraflokkshópi þar sem leikmannahópurinn er eins jafn að getu og margir hafa sveiflast frá því að vera byrjunarmenn og jafnvel lykilmenn í einhverjum leikjum en verið svo á bekknum eða út úr hóp örfáum leikjum seinna. Þrátt fyrir það eru allir að halda haus, leggja egóið til hliðar og setja liðið í fyrsta sæti. Það er aðdáunarvert hvernig nokkrir hjá okkur hafa tekið svona mótlæti. Það sem hins vegar einkennir félagið í heild sinni sýnist mér vera “potential” til þess að verða alvöru 1. deildar lið. Það þurfa bara allir í Mjóddinni að herða sig aðeins til að svo megi verða, og það er bara ákvörðun," segir Kristján.

ÍR-ingar eru í ljómandi flottum málum í 2. deildinni, sitja á toppnum með 28 stig en Afturelding og Grótta koma þar á eftir með 23 og 22 stig.

„Ég reikna með því að restin af mótinu verði erfiðari en fyrri hluti tímabilsins. Við léttum allri pressu af okkur með því að skíta á okkur strax í fyrsta leik á móti Gróttu og í raun eru fyrstu alvöru prófin sem við höfum staðist í sumar þessi síðustu tveir leikir sem hafa verið svokallaðir “toppslagir”. Framundan eru nokkur erfið ferðalög í útileiki og leikir gegn liðum sem hafa engu að tapa gegn okkur. Við höfum sýnt það að við getum elt topplið, en nú er spurning hvort við getum staðist skæruhernað og varið stöðu okkar sem topplið. Það á bara eftir að koma í ljós og er undir okkur komið."

ÍR-ingar verða í eldlínunni í kvöld þegar þeir fá Njarðvíkinga í heimsókn.

„Það verður mjög erfiður leikur og ég meina það en er ekki að fara með einhverja klisju. Það er fullt af mjög öflugum leikmönnum í Njarðvík og við rétt mörðum þá í fyrri leiknum. Við höfum hingað til ekki átt góða leiki gegn liðum sem eru einhverjum sætum fyrir neðan okkur og verið að bjarga okkur með góðum 30-45 mín kafla í þeim leikjum. Það sem ég hlakka samt mest til er að láta Patrik Snæ Atlason hlaupa á mig og yfir í leiknum. Vonandi setur Gummi Steinars hann á vinstri kantinn á móti mér! Þá reikna ég með einu brotnu rifbeini og vonast eftir þremur stigum eftir leik," segir Kristján Ómar kíminn.

Sjá einnig:
Bestur í 11. umferð - Björn Anton Guðmundsson (ÍR)
Bestur í 10. umferð - Jón Gísli Ström (ÍR)
Bestur í 9. umferð - Sergina Modou Fall (Vestri)
Bestur í 8. umferð - Einar Bjarni Ómarsson (KV)
Bestur í 7. umferð - Duje Klaric (Sindri)
Bestur í 5. umferð - Stefán Ari Björnsson (Grótta)
Bestur í 4. umferð - Nik Chamberlain (Afturelding)
Bestur í 3. umferð - Hafsteinn Gísli Valdimarsson (Njarðvík)
Bestur í 2. umferð - Viktor Örn Guðmundsson (KV)
Bestur í 1. umferð - Viktor Smári Segatta (Grótta)
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner