þri 27. september 2016 14:14
Magnús Már Einarsson
Leikur flautaður af í Færeyjum - Boltarnir búnir
Frá landsliðsæfingu í Færeyjum fyrir mörgum árum.
Frá landsliðsæfingu í Færeyjum fyrir mörgum árum.
Mynd: Getty Images
Færeyska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að leika skuli síðustu átta mínuturnar hjá varaliðum Skála og ÍF í 2. deildinni. Leikur liðanna var flautaður af á 82. mínútu á dögunum þar sem allir boltarnir voru búnir að fjúka út í buskann!

Gífurlega mikill vindur var þegar liðin áttust við en dómari leiksins ákvað samt að leikurinn skyldi fara fram.

Markvörður Skála þorði undir lok leiks ekki að sparka boltanum upp í vindinn úr útspörkum sínum og þrumaði þess í stað hverjum boltanum á fætur öðrum út af vellinum.

Á endanum voru allir boltarnir á svæðinu búnir að fjúka út í veður og vind og því varð að hætta leik.

Síðustu átta mínuturnar verða spilaðar á næstu dögum en sömu 22 leikmenn eiga að spila leikinn og voru inn á þegar að flauta þurfti af. Staðan í leiknum var 2-0 fyrir Skála þegar leikurinn var flautaður af og þannig verður staðan þegar síðustu mínúturnar verða leiknar.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner