fim 27. október 2016 11:28
Fótbolti.net
De Boer: Meiðsli Kolbeins koma mér ekki á óvart
Kolbeinn á æfingu með íslenska landsliðinu.
Kolbeinn á æfingu með íslenska landsliðinu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tyrkneskir fjölmiðlar bíða eftir því að íslenski landsliðsmaðurinn Kolbeinn Sigþórsson spili sinn fyrsta leik fyrir Galatasaray, hann gekk í raðir félagsins í sumar en hefur enn ekki getað leikið sinn fyrsta leik vegna meiðsla.

Kolbeinn hefur mikið glímt við meiðsli á ferli sínum og sagt er að í Istanbúl séu menn orðnir óþolinmóðir.

Kolbeinn var hjá Ajax en fyrrum þjálfari hans, Frank De Boer sem nú stýrir Inter, var spurður út í Íslendinginn af tyrkneskum blaðamönnum.

„Það þarf ekki að ræða gæði Kolbeins. Hann er góður leikmaður en er enn í meiðslavandræðum. Það sem hefur gerst með Kolbein hjá Galatasaray kemur mér ekki á óvart," segir De Boer.

Samkvæmt frétt á stuðningsmannasíðu Galatasaray á mánudag mun Kolbeinn líklega missa af síðasta mótsleik Íslands á þessu ári sem er gegn Króatíu í Zagreb þann 12. nóvember. Í byrjun september fór Kolbeinn í aðgerð á vinstra hné.

Ísland er með sjö stig að loknum þremur umferðum í undankeppni HM en Kolbeinn hefur ekkert getað tekið þátt í þeim leikjum vegna þessara hnémeiðsla.

Króatía og Ísland eru saman á toppi riðilsins í undankeppninni og mikilvægur leikur framundan í Zagreb.

Jan Olde Riekerink, þjálfari Galatasaray, sagði á fréttamannafundi í dag að vonir stæðu til að Kolbeinn gæti í næstu viku snúið aftur á fótboltaæfingar að einhverju leyti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner