fim 27. október 2016 11:07
Elvar Geir Magnússon
Rúnar er annar tveggja sem kemur til greina hjá Lokeren
 Besnik Hasi.
Besnik Hasi.
Mynd: Getty Images
Rúnar Kristinsson er annar tveggja sem belgíska félagið Lokeren vill ráða sem nýjan þjálfara liðsins. Hinn er Albaninn Besnik Hasi sem spilaði með liðinu 2006-7.

Hasi var þjálfari Anderlecht en var rekinn í maí á þessu ári eftir að hafa mistekist að vinna samkeppnina við Club Brugge um belgíska meistaratitilinn.

Hann var í sumar ráðinn þjálfari Legia Varsjá í Póllandi en var látinn taka pokann sinn 18. september í kjölfarið á slæmum úrslitum.

Lokeren er í þjálfaraleit eftir að Georges Leekens var rekinn og segir íþróttastjóri félagsins að nýr þjálfari þurfi að koma með meiri aga í búningsklefann.

Rúnar var rekinn frá Lilleström fyrr á þessu ári en hann spilaði með Lokeren frá 2000 til 2007. Rúnar er í miklum metum hjá belgíska félaginu en hann hefur áður verið orðaður við þjálfarastöðuna þar.

Arnar Þór Viðarsson hefur tekið við þjálfun Lokeren tímabundið en samkvæmt belgískum fjölmiðlum kemur hann ekki til greina í starfið til frambúðar.

Landsliðsmennirnir Ari Freyr Skúlason og Sverrir Ingi Ingason spila með Lokeren en liðið er í 12. sæti af 16 liðum í belgísku úrvalsdeildinni.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner