Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fös 27. nóvember 2015 14:00
Magnús Már Einarsson
99,9% að Eiður hætti með landsliðinu eftir EM
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Eiður Smári Guðjohnsen segir nánast öruggt að hann hætti að leika með íslenska landsliðinu eftir lokakeppni EM í Frakklandi. Þetta kemur fram í bókinni Áfram Ísland, sem er nýkomin út, þar sem leiðin í lokakeppni EM 2016 er rakin og hægt er að lesa mörg áhugaverð viðtöl við landsliðsstrákana.

„Það er 99,9% öruggt að ég hætti með landsliðinu eftir EM,“ segir Eiður í bókinni.

Hann hefur þó ekki tekið ákvörðun um hvort hann leggur skóna alveg á hilluna eftir mótið.

„Ég er kominn yfir þann punkt að geta hætt á toppnum,“ segir hann en tekur fram að hann ætli að sjá í hvernig standi hann verður eftir sumarið og hvaða löngun hann hefur.

Eiður segir ljóst að hann verði áfram viðloðandi fótbolta eftir að ferlinum lýkur. „Það er óhjákvæmilegt, þetta hefur verið of stór hluti af lífinu. Svo eigum við þrjá drengi sem eru á kafi í fótbolta þannig að maður verður mikið á vellinum,“ segir hann.

Eiður hefur verið vinsæll sparkspekingur hjá breskum sjónvarpsstöðvum á undanförnum árum og í bókinni segist hann vel geta ímyndað sér að gera meira af því. „Eins og ég hef alltaf sagt, ef maður getur ekki talað um fótbolta þá er eitthvað mikið að,“ segir Eiður.

Eiður er í dag að ákveða næstu skref á ferlinum eftir að hafa síðast leikið með Shijiazhuang Ever Bright í Kína.
Athugasemdir
banner
banner
banner