lau 28. mars 2015 18:10
Elvar Geir Magnússon
skrifar frá Astana í Kasakstan
Gylfi Þór: Mjög gott að spila fótbolta með Eiði
Icelandair
Mynd: Fótbolti.net - Elvar Geir Magnússon
Enn og aftur átti Gylfi Þór Sigurðsson frábæran leik fyrir íslenska landsliðið en liðið vann 3-0 útisigur gegn Kasakstan í kvöld þar sem Gylfi lagði upp annað markið auk þess að eiga stóran þátt í að Ísland átti miðjuna.

„Þetta var mjög gott. Við byrjuðum leikinn vel og það var mjög gott að fá markið svona snemma í fyrri hálfleik. Það var frábært að ná að bæta við seinna markinu og það gaf okkur sjálstraust," sagði Gylfi við Fótbolta.net eftir leikinn.

„Við vörðumst vel og náðum að loka á flest færin þeirra þegar þeir áttu hornspyrnur eða aukaspyrnur úti á velli. Þeir áttu einn skalla í stöng og svo var darraðadans í lokin en annars var þetta mjög góð frammistaða."

Eiður Smári Guðjohnsen skoraði fyrsta mark leiksins en líkt og Gylfi sýndi hann gæðin sem hann býr yfir.

„Það er mjög gott að hafa Eið. Það er ekki sama yfirferð á honum og var en hann er mjög klókur og með góðar hreyfingar. Það er mjög gott að spila fótbolta með honum. Hann er með góðar snertingar og sér hlaup hjá öðrum leikmönnum. Það er mikið spil í kringum hann og hann afgreiddi færi sitt frábærlega," sagði Gylfi.

„Við erum komnir með þrjú stig í viðbót og það er gott að setja smá pressu á Tékkana. Vonandi misstíga þeir sig á móti Lettlandi og þá verður hörkuleikur á Íslandi í sumar. Það er mikill áhugi á okkar liði þegar vel gengur en við verðum að halda áfram. Ég býst við fullum velli í júní."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner