Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. mars 2017 17:08
Elvar Geir Magnússon
Dublin, Írlandi
Dvöl á Íslandi hjálpaði landsliðsmanni Íra
Icelandair
Richard Keogh spilaði fyrir Víkinga 2004, þegar hann var 17 ára gamall.
Richard Keogh spilaði fyrir Víkinga 2004, þegar hann var 17 ára gamall.
Mynd: Getty Images
Írski landsliðsvarnarmaðurinn Richard Keogh, leikmaður Derby County, er í viðtali í leikskránni fyrir vináttulandsleik Írlands og Íslands sem fram fer í kvöld. Í viðtalinu rifjar hann upp sumarið 2004 þegar hann lék fyrir Víking Reykjavík á Íslandi.

Keogh kom á láni frá Stoke City ásamt liðsfélaga sínum, Jermaine Palmer.

„Íslenskir eigendur komu inn í Stoke og þar með skapaðist tækifæri á að fara á lán til Íslands. Fyrir mig var þetta tækifæri til að spila alvöru keppnisfótbolta og því kýldi ég á þetta. Fram að þessu hafði ég spilað varaliðsbolta svo þetta var stórt skref og einmitt það sem ég þurfti á þessum tíma," segir Keogh.

Hann segir að það hafi verið mikil harka í íslenska boltanum og enginn afsláttur veittur.

„Utan vallar þurftum við að hugsa um okkur sjálfir og í raun þroskast fljótt. Allir töluðu góða ensku og það var auðvelt að aðlagast en sólarljós 24 tíma á dag var eitthvað sem var hálf klikkað. Þú hélst að það væri morgun þegar það var komið kvöld. Maður þurfti að venjast því."

Keogh telur að þessi Íslandsdvöl sín hafi hjálpað sér að þróa ferilinn. Hann hefur í dag, 30 ára gamall, spilað yfir 400 deildarleiki á Englandi og 15 landsleiki fyrir Írland.

„Það var frábær reynsla að spila á Íslandi. Ég þroskaðist mikið á því að fara þarna og þetta hjálpaði mér að þróa ferilinn. Ég var með miklu meira sjálfstraust þegar ég fór aftur til Englands. Ég tel að ungur leikmenn eigi svo sannarlega að hugsa út í þann möguleika að fara erlendis í öðruvísi deild, fara út og spila. Það gæti verið stökkpallur í góðan feril."

„Einhver myndi telja það áhættu en ef þú leggur mikið á þig þá færðu það venjulega borgað til baka," segir Keogh.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner