þri 28. apríl 2015 08:30
Ívan Guðjón Baldursson
Giroud: Útlitsspurningar gera mig virkilega brjálaðan
Mynd: Getty Images
Olivier Giroud er að verða brjálaður á spurningunum sem hann fær sem snúast oft um hárgreiðsluna hans frekar en fótbolta.

Giroud var spurður út í nýju hárgreiðsluna sína og tók ekki sérlega vel í spurninguna.

„Ég vil ekki tala um útlitið mitt, hárið mitt eða neitt svoleiðis, það gerir mig virkilega brjálaðan," sagði Giroud sem er búinn að skora 18 mörk fyrir Arsenal á tímabilinu.

„Það sem ég veit og vil tjá mig um er hvað þarf til að vera atvinnumaður og spila á móti þeim bestu í hverri viku. Maður þarf að gagnrýna sjálfan sig í hverri viku og vera tilbúinn í hausnum.

„Maður þarf að vera 100 prósent tilbúinn, ákveðinn og einbeittur til að gera vel og vinna leiki. Maður getur ekki leyft sér að vera 80 eða 90 prósent tilbúinn."


Giroud var einnig spurður hvort hann sé sammála þeirri skoðun, sem er mjög umdeild, að Chelsea spili leiðinlega knattspyrnu.

„Ég veit ekki hvort Chelsea sé leiðinlegt lið. Það er stöðutafla sem sýnir velgengni þeirra svart á hvítu.

„Það er rétt að þeir spila ekki eins og við, en við erum ekki að fara að breyta okkar leikstíl og ekki þeir heldur. Þeir eru sáttir með sinn leikstíl og ef þeir enda uppi sem meistarar, hvað getur maður þá sagt?"

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner