Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 28. apríl 2015 10:30
Magnús Már Einarsson
Gunnar Guðmunds: Vona að okkur takist að bæta við mönnum
Gunnar leggur línurnar.
Gunnar leggur línurnar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Úr leik hjá Gróttu í Lengjubikarnum.
Úr leik hjá Gróttu í Lengjubikarnum.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ég get nú ekki beint sagt að þessi spá komi mér á óvart," segir Gunnar Guðmundsson þjálfari Gróttu en liðinu er spáð tólfta og neðsta sæti í 1. deildinni í sumar í spá fyrirliða og þjálfara.

Grótta kom upp úr 2 .deildinni í fyrra en Seltirningar eiga eftir að ræða betur markmið sín fyrir sumarið.

„Það eina sem er ákveðið er að við setjumst niður eftir helgi til að ræða þau mál með leikmönnum og stjórn. Það má þó vera nokkuð augljóst að við stefnum auðvitað á að halda sæti okkar í deildinni. Ég reikna ekki með að við verðum of uppteknir af því að setja okkur í eitthvað sæti heldur snýst þetta frekar um að setja markmið á þá hluti sem þjálfarar, leikmenn og stjórn geta haft raunveruleg áhrif á."

Gunnar tók við Gróttu síðastliðið haust og hefur gengið vel að komast inn í nýtt starf.

„Það hefur nú verið frekar auðvelt enda gæða fólk á nesinu. Þetta er frábært félag, traust og gott fólk sem starfar í kringum liðið og mér hefur liðið vel hérna frá fyrsta degi," sagði Gunnar en er hann ánægður með undirbúningstímabilið?

„Það hefur margt gott verið í gangi hjá okkur en ýmislegt líka sem betur hefði mátt fara. Ég hefði gjarnan viljað vera kominn lengra á veg með ýmsa hluti en aðstæður hafa einfaldlega ekki boðið upp á það."

„Ég er ánægður með strákana, þeir hafa unnið vel í vetur og framfarir auðsjánlegar. Nýir leikmenn hafa verið fljótir að aðlagast og hópurinn er þéttur og samheldinn. Veturinn er búinn að vera frekar erfiður veðurfarslega sem haft hefur áhrif á æfingar en okkur hefur þó tekist að halda ágætum dampi."


Vonast eftir liðsstyrk
Gunnar vonast til að fá liðsstyrk áður en flautað verður til leiks í 1. deildinni þann 8. maí næstkomandi.

„Ég vona að okkur takist að bæta við okkur mönnum áður en mótið hefst. Við misstum marga leikmenn frá síðasta tímabili og erum með nokkra sem glímt hafa við langtíma meiðsli. Það er mikilvægt fyrir okkur að ná að fylla í þessi skörð og vonast ég til þess að okkur takist að leysa úr því áður en mótið hefst - í síðasta lagi áður en glugginn lokar um miðjan maí."

Vill sjá öll félög á gervigrasi
Grótta spilar á gervigrasi í sumar eins og þrjú önnur lið í 1. deildinni. Gunnar segir að það sé framtíðin.

„Ég met stöðuna þannig að gervigrasið er komið til að vera og innan fárra ára verða vonandi öll félög komin með gervigras á sína keppnisvelli. Ég tel það einfaldlega nauðsynlega þróun til að geta á einhverjum tímapunkti lengt í Íslandsmótinu til þess að hægt verði að spila í kringum 30 alvöru leiki hér á landi á hverju tímabili. Fótboltinn hjá okkur verður ekki betri nema að við náum að lengja í Íslandsmótinu og spila fleiri alvöru leiki. Það verður heldur ekki framhjá því horft að öll nýting á mannvirkjum er mun betri með gervigrasvöllunum," sagði Gunnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner