Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   þri 28. apríl 2015 13:30
Arnar Daði Arnarsson
Pepsi-deildin
Heimir Guðjóns: Nýtt kerfi svo við séum ekki fyrirsjáanlegir
FH-ingum er spáð Íslandsmeistaratitlinum.
FH-ingum er spáð Íslandsmeistaratitlinum.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Heimir á hliðarlínunni.
Heimir á hliðarlínunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Þetta er ekkert sem kemur á óvart. Það hefur verið talað um í allan vetur að við séum með sterkt lið. Þetta gefur okkur ekkert. Við þurfum að vera klárir þegar mótið byrjar,” segir Heimir Guðjónsson þjálfari FH sem spáð er fyrsta sæti í Pepsi-deildinni.

„Við höfum verið upp og niður á undirbúningstímabilinu. Við höfum átt góða leiki en þess á milli dottið niður. Nú höfum við nokkra daga til að undirbúa okkur og vera klárir þegar deildin byrjar,” segir Heimir sem þarf að púsla saman nýju liði frá því í fyrra en alls hafa sjö leikmenn gengið til liðs við FH frá því í fyrra.

Tekur tíma að slípa liðið saman
„Við misstum góða leikmenn eftir síðustu leiktíð og höfum fengið sterka leikmenn í staðin. Við erum ánægðir með hópinn. Við hinsvegar gerum okkur grein fyrir því að þegar það eru miklar mannabreytingar þá tekur tíma að slípa þetta saman.”

„Við erum ánægðir með þá leikmenn sem hafa komið. Þeir hafa staðið sig vel í þessum leikjum sem þeir hafa spilað. Hinsvegar vitum við það, að þegar inn í mótið er komið þá reynir á þá, eins og aðra leikmenn liðsins að vera tilbúnir.”

Íslenskir leikmenn of dýrir
Amath André Diedhiou og Jeremy Serwy gengu til liðs við FH í vetur en fyrir voru FH með þónokkra erlenda leikmenn. Heimir vill meina það, að fyrir minni upphæð er hægt að fá betri erlenda leikmenn en íslenska.

„Bestu íslensku leikmennirnir eru að verðleggja sig of hátt. Þess vegna höfum við tekið þá ákvörðun að fá til okkar góða erlenda leikmenn,” segir Heimir sem segir markmið FH skýr.

„Við höfum verið í titilbaráttunni og keppt um þá titla sem eru í boði undanfarin ár og það er engin breyting á því í ár.”

„Markmiðin hafa ekkert breyst frá síðustu árum. Við viljum standa okkur vel í Evrópukeppninni. Við höfum séð það undanfarin ár að það eru ákveðnir möguleikar að gera góða hluti. Það þarf margt að ganga upp svo við komumst þangað sem við viljum komast.”

Spila 4-4-2 í sumar
Frá því að Logi Ólafsson tók við FH liðinu í kringum 2000, þá hefur FH spilað sama leikkerfið, 4-3-3. Með tilkomu margra nýrra leikmanna hefur Heimir aðeins breytt út af vananum í vetur. FH liðið hefur nefnilega í nokkrum leikjum í Lengjubikarnum spilað 4-4-2.

„Við höfum haldið okkur við 4-3-3 kerfið í að verða 15 ár. Við höfum styrkt og bætt leikkerfið innan frá. Í vetur höfum við verið að nota 4-4-2. Það er leið fyrir okkur, svo við séum ekki of fyrirsjáanlegir. Við þurfum að geta breytt út af vananum og gert hluti sem kemur andstæðingnum á óvart,” segir Hemir sem býst við að nota bæði leikkerfin í sumar.

„Ef ég myndi segja þér, í hvaða leikjum við notuðum hvaða kerfi, þá væri ég að gefa þér of miklar upplýsingar,” segir Heimir á léttu nótunum.

Sterkasta KR lið undanfarin ár
FH hefur á að skipa mörgum góðum og reyndum leikmönnum í bland við unga og efnilega leikmenn.

„FH hefur verið með ágætis breidd í gegnum árin. Við metum þetta svo, að það þarf að vera ákveðin samkeppni í liðinu. Leikmennirnir þurfa að vita að því að það sé ekki hægt að slappa af. Ég hef alltaf litið á þetta sem lúxus vandamál í staðin fyrir hitt,” segir Heimir sem mætir með sitt lið í Frostaskjólið í fyrstu umferð.

„Það verður erfiður leikur. Það er kannski hægt að segja það, að KR liðið er ekki með jafn mikla breidd og síðustu ár. Byrjunarlið KR er aftur á móti eitt það allra sterkasta sem KR hefur verið með á síðustu árum,” segir Heimir Guðjónsson þjálfari FH að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner