Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 28. apríl 2016 10:15
Magnús Már Einarsson
Viðar Jóns: Austfirðingum ætti ekki að leiðast í sumar
Viðar Jónsson (til hægri).
Viðar Jónsson (til hægri).
Mynd: Leiknir Fáskrúðsfirði
Mynd: Jóhanna Kristín Hauksdóttir
Viðar Jónsson, þjálfari Leiknis frá Fáskrúðsfirði, segir það ekki koma sér í opna skjöldu að liðinu sé spáð 9. sæti í Inkasso-deildinni í sumar.

„Alls ekki. Ég reiknaði klárlega með að okkur yrði spáð í neðri hlutanum enda höfum við aldrei spilað í 1. deild áður. Nú er það okkar að gera betur en spáin segir til um," sagði Viðar við Fótbolta.net.

„Markmið okkar í sumar er klárlega að njóta þess að spila í Inkasso-deildinni, skemmta sjálfum okkur og öðrum. Verkefnið er klárlega ærið þar sem mörg lið setja stefnuna á Pepsi. Auðvitað viljum við reyna að stríða þeim flestum og tryggja sæti okkar í deildinni sem fyrst. Við förum í alla leiki til að vinna þá og við sjáum hvað það skilar okkur að lokum," sagði Viðar sem býst við skemmtilegri deild.

„Ég held að deildin verði jöfn og skemmtileg. Einhver lið eiga eftir að koma á óvart og önnur að valda vonbrigðum eins og gengur. KA, Keflavík og Leiknir R. eru þau lið sem ég held að berjist um toppsætin tvö."

Viðar segir að baráttan á leikmannamarkaðinum hafi verið nokkuð erfið í vetur. Leiknismenn hafa meðal annars samið við tvo spænska leikmenn sem koma síðan ekki til félagsins eftir allt saman.

„Þetta hefur gengið upp og ofan. Sem betur fer erum við með ágætan kjarna af heimamönnum sem spilað hafa flesta æfingaleiki vetrarsins. Undir vorið höfum við verið að semja við nokkra og við mættum með þéttan hóp í fyrsta leik á Selfossi 7. maí."

Í vikunni komu Jonas Westmark og Ignacio Poveda Ganoa til Leiknis og von er á fleiri leikmönnum á næstu dögum. „Ég von á fjórum leikmönnum í viðbót við þann hóp sem þegar er kominn," sagði Viðar.

Auk Leiknismanna þá verða Huginn og Fjarðabyggð á meðal liða í Inkasso-deildinni í sumar. „Það er frábært fyrir Austurland að hafa þrjú lið í Inkasso-deildinni. Austfirðingum ætti ekki að leiðast í sumar og ég veit fyrir víst að þeir hlakka til," sagði Viðar.
Athugasemdir
banner
banner
banner