þri 28. júní 2016 14:15
Arnar Daði Arnarsson
Best í 5. umferð: Kjúllinn sem borðaði allt nammið á bekknum
Berglind Hrund Jónasdóttir (Stjarnan)
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Mynd: Fótbolti.net - Tomasz Kolodziejski
„Mér fannst við verjast vel sem ein heild og halda boltanum vel, svo var nátturulega snilld að halda hreinu og skora þrjú mörk," sagði markvörður Stjörnunnar, Berglind Hrund Jónasdóttir.

Berglind Hrund er leikmaður 5. umferðar í Pepsi-deild kvenna hjá Fótbolta.net en hún hélt hreinu í stórleik umferðarinnar, þegar Stjarnan vann 3-0 sigur á Val á laugardaginn.

Stressuð í byrjun
„Sigurinn var í rauninni stærri en ég bjóst við. Valur er með hörkulið og það hefur alltaf verið mikil barátta þegar þessi lið mætast, en mér fannst við vinna vel fyrir þessum sigri," sagði Berglind sem var ánægð með sína frammistöðu í leiknum.

„Ég var smá stressuð í byrjun en með leiknum aukst sjálfstraustið og ég hélt mínum dampi. Heilt yfir í sumar finnst mér ég hafa haldið góðri einbeitingu og klárað leikina með sóma," sagði Berglind sem hefur einungis fengið á sig eitt mark í fyrstu fimm umferðunum.

„Ég er með flott lið fyrir framan mig og ég vissi að við myndum smella vel saman varnalega. Allt liðið hefur verið að verjast vel og ég hef sinnt mínu í markinu, þannig ég tel þetta ekki koma á óvart."

Stjarnan er eftir fyrstu fimm umferðirnar á toppi deildarinnar með 13 stig, tveimur stigum meira en ríkjandi Íslandsmeistarar Breiðabliks.

„Við höfum klárað okkar markmið og erum mjög sáttar með að hafa náð að klára stóru leikina hingað til."

Þakklát fyrir traustið
Á laugardaginn lék í marki Vals, Sandra Sigurðardóttir sem leikið hafði með Stjörnunni frá árinu 2005 að undanskyldum nokkrum mánuðum árið 2012 þegar hún lék í Svíþjóð. Berglind hefur verið varamarkvörður fyrir Söndru síðustu ár hjá Stjörnunni.

„Það var mjög gaman að fá að keppa á móti Söndru en ekki vera á bekknum og horfa á hana keppa. Ég hef æft með henni nánast á hverjum einasta degi í fjögur ár og við erum miklir félagar. Sandra hefur hjálpað mér mikið að þroskast sem markmaður þannig að það var mjög gaman að loksins að fá að spila á móti henni," sagði Berglind sem er ánægð með það traust sem hún fékk frá Stjörnunni eftir að Sandra yfirgaf Stjörnuna.

„Traustið sem þeir Óli og Elli hafa gefið mér er eitthvað sem að ég er mjög þakklát fyrir. Einnig traustið sem að allt liðið hefur gefið mér. Stjarnan hefur verið að vinna alla stóru titlana þegar ég hef verið á bekknum, þetta er lið sem vill halda áfram að vinna alla titla sem í boði eru."

„Það eru ekki allir sem myndu treysta einhverjum kjúlla sem grínast endalaust og borðar allt nammið á bekknum en ég tel mig hafa unnið inn traustið með frammistöðu minni í vetur og svo núna í sumar," sagði Berglind Hrund Jónasdóttir, tvítugur markvörður Stjörnunnar að lokum.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Pepsi-deild kvenna fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Leikmaður 4. umferðar - Hallbera Guðný Gísladóttir (Breiðablik)
Leikmaður 3. umferðar - Lauren Elizabeth Hughes (Selfoss)
Leikmaður 2. umferðar - Jeannette Williams (FH)
Leikmaður 1. umferðar - Harpa Þorsteinsdóttir (Stjarnan)
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner