Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 28. júní 2016 09:00
Arnar Daði Arnarsson
Bestur í Inkasso: Erfitt fyrir önnur lið að koma á Ásvelli
Alexander Helgason - Haukar
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
„Spilamennskan var góð á köflum. Við vorum ekki mikið með boltann í leiknum og lágum mikið til baka. Við beittum góðum skyndisóknum á þá sem virkaði nokkuð vel," sagði miðjumaður Hauka, Alexander Helgason um 4-3 sigur liðsins á Keflavík í Inkasso-deildinni á föstudaginn.

Alexander er leikmaður umferðarinnar í Inkasso-deildinni en hann skoraði tvö gullfalleg mörk í leiknum og átti flottan leik á miðjunni hjá Haukum.

„Ég var frekar sáttur með mína frammistöðu í leiknum og skoraði tvö góð mörk. Þetta var besti leikur minn það sem af er þessu tímabili," sagði Alexander en sigurinn kom einhverjum á óvart en Haukaliðið fékk skell í umferðinni á undan gegn botnliði Leikni F. 4-0.

„Við erum mjög góðir á heimavelli og höfum sýnt það hingað til. Það er mjög erfitt fyrir önnur lið að koma á Ásvelli og sækja stig," sagði Alexander en Haukar hafa unnið alla þrjá heimaleiki sína á tímabilinu, þar á meðal á móti Keflavík og KA, liðunum sem spáð var upp fyrir tímabilið.

„Við þurfum að bæta okkur á útivelli og koma meira tilbúnir til leiks. Við þurfum að sækja fleiri stig og bæta spilamennskuna," sagði Alexander en Haukar hafa einungis fengið eitt stig í fyrstu fjóru útileikjum sumarsins. Hann segir að Haukaliðið þurfi að sýna meiri stöðugleika.

„Við höfum unnið lið eins og KA og Keflavík sem eru mjög góð lið en tapað síðan á móti liðum sem eru neðar í töflunni. Við erum ekki alveg nógu ánægðir með spilamennskuna. Við getum klárlega gert betur og værum til í að vera með fleiri stig."

„Þessi deild er samt svo jöfn. Ef þú vinnur nokkra leiki í röð ertu kominn frekar ofarlega," sagði leikmaður 7. umferðarinnar í Inkasso-deildinni.

„Við einbeitum okkur alltaf á næsta leik og reynum að fá meiri stöðugleika í liðið," sagði Alexander Helgason að lokum en Haukar mæta Leikni R. í næstu umferð á útivelli. Bæði lið eru með 10 stig um miðja deild.

Verbúð 11 gefur verðlaun
Leikmaður umferðarinnar í Inkasso-deildinni fær 15 þúsund króna gjafabréf frá veitingastaðnum Verbúð 11 sem og kassa af Pepsi Max.

Sjá einnig:
Bestur í 6. umferð - Elfar Árni Aðalsteinsson (KA)
Bestur í 5. umferð - Ivan Bubalo (Fram)
Bestur í 4. umferð - Gunnar Örvar Stefánsson (Þór)
Bestur í 3. umferð - Jósef Kristinn Jósefsson (Grindavík)
Bestur í 2. umferð - Arnar Aðalgeirsson (Haukar)
Bestur í 1. umferð - Stefán Ómar Magnússon (Huginn)
Athugasemdir
banner