Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   þri 28. júní 2016 19:57
Jóhann Ingi Hafþórsson
Annecy
Heildarframmistaða strákanna okkar: Raggi bestur
Icelandair
Hannes er búinn að vera með betri markmönnum mótsins
Hannes er búinn að vera með betri markmönnum mótsins
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson er búinn að vera bestur íslensku leikmannanna.
Ragnar Sigurðsson er búinn að vera bestur íslensku leikmannanna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar hefur verið mjög stabíll og góður
Aron Einar hefur verið mjög stabíll og góður
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gyfli er kominn með mark og búinn að standa sig vel.
Gyfli er kominn með mark og búinn að standa sig vel.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Enginn í byrjunarliðinu er með undir 7 í meðaleinkunn.
Enginn í byrjunarliðinu er með undir 7 í meðaleinkunn.
Mynd: Getty Images
Ísland komst í 8-liða úrslit EM í gær með ótrúlegum 2-1 sigri á Englandi. Við á Fótbolta.net höfum haldið uppi einkunnargjöfum eftir hvern einasta leik.

Við reiknuðum meðaleinkun allra leikmanna byrjunarliðsins hingað til og er hún í hærra móti þar sem liðið hefur að sjálfsögðu staðið sig fáranlega vel.

Hannes Þór Halldórsson 8
Var maður leiksins gegn Portúgal í fyrsta leik en var heppinn að gefa Austurríki ekki opnunarmarkið í París og gaf vítið gegn Englandi í gær en hefur þess fyrir utan verið ótrúlega góður. Verið einn allra besti markmaður mótsins og ein af stærstu ástæðum góðs gengis hjá liðinu.

Birkir Már Sævarsson 7.25
Það hefur oft legið mikið á vörn Íslands í keppninni og hefur Birkir verið partur á að hún hefur aðeins fengið á sig fjögur mörk hingað til og aldrei meira en eitt mark í leik. Sinnir varnarhlutverkinu yfirleitt mjög vel. Féll aðeins niður með að skora sjálfsmarkið gegn Ungverjum en heilt yfir, gott mót hjá honum, sérstaklega varnarlega. Hefði getað skorað gegn Englandi en fínt skot hans fór rétt yfir.

Kári Árnason 8
Var góður í fyrstu tveimur leikjunum en gjörsamlega frábær í síðari tveim. Bjargaði nokkrum sinnum ótrúlega vel á móti Austurríki, sem og Englandi ásamt því að leggja upp mörk í báðum leikjunum með að flikka löngu innkasti áfram. Hann er 33 ára og hefur aldrei spilað betur en hann og Ragnar Sigurðsson eru ótrúlega góðir saman í hjarta varnarinnar.

Ragnar Sigurðsson 9
Verið besti maður Íslands í keppninni hingað til. Hann kemur liðinu ótrúlega oft til bjargar á erfiðum augnablikum. Vinnur nánast alla skallabolta og tæklingar og er búinn að halda stórkostlegum leikmönnum niðri, hvort sem það er Cristiano Ronaldo, Harry Kane eða Jamie Vardy. Átti án efa eina allra bestu tæklingu mótsins þegar Jamie Vardy var að sleppa í gegn í seinni hálfleiknum á móti Englandi. Ragnar spilar í Rússlandi en hefur gefið það út að honum langi að spila í stærri deild. Heimurinn er galinn ef Ragnar fær ekki frábært tilboð eftir mót. Eins og áður hefur komið fram, ótrúlegur með Kára í hjarta varnarinnar. Fullkomnaði gott mót í gær með að skora mark og hefði getað skorað eitt af mörkum mótsins þegar hjólhestaspyrna hans fór í Joe Hart.

Ari Freyr Skúlason 7,25
Ari hefur verið mjög traustur í vinstri bakverðinum hingað til. Fékk á sig víti á móti Austurríki og var heppinn að þau urðu ekki tvö en þess fyrir utan er lítið yfir hans frammistöðu að kvarta og sérstaklega á móti Englandi í gær þar sem hann hélt Daniel Sturridge vel niðri. Hefur ekki fengið að sækja neitt sérlega mikið í keppninni en skot hans af um 30 metrum gegn Englandi í gær var eitt dæmi um að hann getur brugðið sér í sóknarleikinn.

Aron Einar Gunnarsson 8
Ótrúlega mikilvægur partur af púsluspilinu. Manni líður einfaldlega töluvert mikið betur með fyrirliðann inná miðjunni að vinna bolta en eina skiptið sem Ísland hefur fengið mark á sig, seint í leik var þegar hann var farinn útaf vegna smávægilegra meiðsla. Var meiddur fyrir mót en hefur heldur betur náð að glíma við þau og hefur sjaldan verið eins góður og hann hefur verið á mótinu hingað til. Hefði getað skorað gegn Englandi í gær ásamt því að hann vann vítið gegn Ungverjum. Löngu innköstin hans hafa síðan skilað tveim mörkum.

Gylfi Þór Sigurðsson 8
Hefur verið í svolítið ólíku hlutverki á þessu móti en oft áður. Liggur aftar á vellinum og hjálpar Aroni við að sópa til og svo sækir hann þegar tækifæri gefst og hjálpar hann bæði vörn og sókn gríðarlega mikið. Gæðin frammi á vellinum og baráttan aftar á vellinum skilar miklu. Skoraði örugglega úr vítinu sem Aron vann á móti Ungverjum og hefði getað verið kominn með fleiri mörk en hann fékk sérstaklega góð færi gegn Portúgal og Austurríki.

Jóhann Berg Guðmundsson 7,25
Kannski ekki besta mótið hans sóknarlega, þó hann lagði upp fyrsta mark Íslands á mótinu og var óheppinn að skora ekki stórglæsilegt mark á móti Austurríki. Hann hjálpar hins vegar Birki Má, óhemju mikið í varnarleiknum og skilar alltaf sínu og hleypur endalaust fyrir liðið.

Birkir Bjarnason 8,5
Birkir skráði sig í sögubækurnar þegar hann skoraði fyrsta mark Íslands á stórmóti. Hann jafnaði þá í 1-1 gegn Portúgal. Það eru fáir leikmenn í liðinu jafn öruggir og hann á boltanum og líður honum vel með hann þó mótherjinn sé með mikla hápressu ásamt því að hann hleypur og berst, nánast á við tvo. Alltaf hættulegur í sóknarleiknum og hjálpar þar af auki mjög mikið í varnarleiknum og vinnur vel með Ara Frey Skúlasyni. Stórglæsilegt mót hjá Birki hingað til og greinilega að dvölin hjá Basel í Sviss hefur gert honum gott.

Kolbeinn Sigþórsson 8
Skoraði sitt fyrsta mark á mótinu, með sínu fyrsta skoti á markið í mótinu, gegn Englandi. Varnarmönnum líður ekki vel að eiga við hann þar sem hann tapar varla skallabolta og er erfiður viðureignar. Hann er mikilvægur í báðum vítateigum þar sem hann hjálpar mikið þegar andstæðingurinn fær hættuleg föst leikatriði. Berst og hleypur alltaf allan leikinn og átti einn af hröðustu sprettum mótsins á móti Portúgal. Hefur varla átt slæman leik á sínum landsliðsferli.

Jón Daði Böðvarsson 7,25
Eins og Kolbeinn þá berst hann allan leikinn í hverjum einasta leik, vinnur skallabolta og er fljótur að covera varnarlega á köntunum þegar bakverðirnir eru komnir fram. Skoraði gott og mikilvægt mark á móti Austurríki og hefur heilt yfir verið mjög góður í þessu móti fyrir utan leikinn á móti Ungverjum.

Fótbolti.net er með öflugt teymi á Evrópumótinu og færir ykkur fjölmargar fréttir daglega. Einnig er fylgst grannt með gegnum helstu samskiptamiðla.
- Vertu með okkur á Twitter með því að nota kassamerkið #fotboltinet fyrir færslur um mótið.
- Fótbolti.net á Snapchat: Fotboltinet
- Fótbolti.net á Instagram: Smelltu hér til að sjá .Net á Instagram.
Fótbolti.net á Facebook: Smelltu hér til að fara á heimasvæði Fótbolta.net á Facebook.

FARÐU Á EM SÍÐU FÓTBOLTA.NET
Athugasemdir
banner